Skoðun

Ræningjar leika lausum hala í sveitum landsins

Stefán Þórsson skrifar
Umhverfisstofnun (UST) hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að gjaldtaka við Kerið sé ólögmæt. Sú ólöglega miðasala hefur nú staðið yfir í eitt ár, en mun vonandi verða stöðvuð fljótlega þar sem UST virðist loksins ætla að sinna lögbundinni skyldu sinni, sem er m.a. sú að náttúruverndarlög séu virt og þeim sé framfylgt. Í yfirlýsingunni kom einnig fram að gjaldtaka landeigenda í Mývatnssveit sé án allra lagaheimilda og þar með ólögleg, m.ö.o. þjófnaður.

Það skýtur samt skökku við að UST ætli sér að bjóða lögbrjótum við Kerið að samningaborðinu og bjóða þeim samning við stofnunina, sem væri þá forsenda einhvers konar gjaldtöku á svæðinu. Eðlilegra væri að lögbrjótarnir bæðust afsökunar á framgangi sínum og væru fegnir því að sleppa við ákæru fyrir fjársvik. Litlar líkur eru á því að þeir hafi áhuga á samningi við stofnunina, þar sem arðgreiðslur yrðu óheimilar í þeim samningi. Þetta snýst nefnilega um náttúruvernd, en ekki að græða peninga.

Linkind og aumingjaskapur stjórnvalda gegn þessum sjálftökumönnum er óskiljanlegur og mun væntanlega engin breyting verða þar á fyrr en Íslendingar átta sig á hversu alvarlegt mál er á ferðinni og láta í sér heyra. Almenningur verður að gera sér grein fyrir því hve hættulegt fordæmi mun skapast ef svona sjálftaka verður látin óáreitt og grundvallarréttindum okkar stofnað í hættu. Á ég þar við rétt okkar til frjálsrar farar um eigið land án þess að greiða óprúttnum landeigendum gjald fyrir. Gjald, sem er ekki bara ólöglegt og án allra lagaheimilda, heldur líka byggt á fölskum forsendum, þar sem upphrópanir um landspjöll eiga sjaldnast við rök að styðjast. Sumir virðast líka lifa í þeirri blekkingu að einungis erlendir ferðamenn muni greiða fyrir aðgang að náttúruperlum okkar, en það er auðvitað alrangt. Íslenskar fjölskyldur munu greiða rétt eins og útlendingurinn, ef þessir ræningjar fá að leika lausum hala um land allt. Hvar mun það enda ef landeigendum verður í sjálfsvald sett hvort þeir rukka fyrir aðgang að sínu landi, þ.e. hvar á að draga mörkin? Ætla Íslendingar að afsala sér þessum grundvallarrétti án þess að láta í sér heyra? Því trúi ég ekki.

Grundvallarréttur

Lögin eru skýr og réttur okkar verður ekki afnuminn, jafnvel þótt ferðamálaráðherra og ríkisstjórnin haldi verndarvæng yfir lögbrjótunum. Þjóðin verður að sýna stjórnvöldum að réttur þeirra til frjálsrar farar um eigið land er ekki lögfræðilegt vafaatriði, heldur lögbundinn grundvallarréttur okkar. Það gerum við með því að skoða Geysi, Kerið, Námaskarð og Leirhnjúk án þess að greiða krónu fyrir. Þess má geta að öll uppbygging á fyrrnefndum svæðum hefur verið kostuð af almannafé og hafa landeigendur aldrei lagt krónu í þessi svæði, nema kaup á posavélum. Það er fjárfestingin og kostnaðurinn sem þeir tala um.

Íslendingar greiða nóg í skatta og gjöld og hefur heilmiklu opinberu fé verið varið í ferðamannastaði, þótt ýmislegt megi vafalaust bæta. Þar að auki streymir fé inn í ríkiskassann frá erlendum ferðamönnum og er ekkert sjálfsagðara en að þaðan komi peningarnir.

Hætta er á því að landeigendur muni beita lokunum inn á lönd sín ef þeir fá ekki að stunda sín lögbrot í friði. Heimild landeigenda til að loka eða takmarka umferð fólks er til staðar í náttúruverndarlögum, en var að sjálfsögðu ekki hugsuð til þess að vera misnotuð á þann hátt. Ef svo fer, þá ber stjórnvöldum að krefjast eignarnáms á viðkomandi jörðum í þágu almannahagsmuna. Í því ljósi hlýtur líka að vera nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði náttúruverndarlaga á þann hátt, að landeigandi þurfi að gera grein fyrir sinni lokun til Umhverfisstofnunar og jafnvel fá til þess leyfi. Að vera pirraður á göngufólki væri til dæmis ekki gild ástæða.




Skoðun

Sjá meira


×