Körfubolti

Líflína Grindavíkur er í hendi Lewis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lewis Clinch þarf að eiga góðan leik í kvöld ætli Grindvíkingar að tryggja sér oddaleik á laugardaginn.
Lewis Clinch þarf að eiga góðan leik í kvöld ætli Grindvíkingar að tryggja sér oddaleik á laugardaginn. Vísir/Valli
Íslandsmeistarar Grindavíkur fá KR í heimsókn í fjórða leik liðanna í kvöld í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla. KR leiðir 2-1 og tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Gulklæddir heimamenn knýja fram oddaleik með sigri. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, segir möguleika Grindavíkur standa og falla með frammistöðu eins manns, Earnest Lewis Clinch Jr.

Clinch verður að eiga stórleik

„Möguleiki Grindavíkur felst í því að Clinch eigi stórleik. Þeir þurfa algjört toppframlag frá honum,“ segir Benedikt, sem hefur komið víða við á þjálfaraferli sínum. Bæði Grindavík og KR hafa notið krafta hans þótt Vesturbæjarliðið sé það félag sem Benedikt tengist sterkustu böndum.

„Kannski er KR-ingur inni í mér alltaf að þvælast fyrir mér þegar kemur að KR,“ segir Benedikt léttur um vangaveltur sínar um möguleika liðanna. Engin spurning sé þó hvorum megin gæðin liggi.

„Ef þú berð saman þessi lið þá eru gæðin klárlega KR-megin. Þeir hafa breiddina,“ segir Benedikt. Bendir hann á að margreyndir landsliðsmenn á borð við Brynjar Þór Björnsson og Magna Hafsteinsson komist ekki í byrjunarlið þeirra svörtu og hvítu. „Það eru leikmenn sem myndu byrja inni á í nánast hvaða liði sem er.“

Munar rosalega um Þorleif

Á sama tíma séu Grindvíkingar vængbrotnir vegna meiðsla Þorleifs Ólafssonar. Þorleifur sleit krossband í átta liða úrslitunum gegn Benedikt og félögum og segir þjálfarinn muna rosalega um Þorleif.

„Hann er eiginlega hjartað og karakterinn í þessu liði,“ segir Benedikt en hrósar um leið karakter Grindvíkinga. „Þeir hafa risahjarta og eru búnir að fara mjög langt þrátt fyrir að verða fyrir skakkafalli.“

Ólafur Ólafsson, bróðir Þorleifs, verður aftur á móti með í kvöld en hann slapp við bann eftir að hafa verið kærður til aganefndar fyrir afar óheppileg ummæli sín eftir tapið í DHL-höllinni á mánudag.

Þótt líkurnar séu meiri á sigri KR segist Benedikt alls ekki þora að afskrifa Grindavíkurliðið. Þar séu leikmenn með mikla reynslu og sigurhefð sem gætu vel snúið við blaðinu eftir slátrunina í síðasta leik. Það kæmi Benedikt ekkert á óvart ef Grindavík hefði betur í kvöld. „Hins vegar sé ég ekkert lið vinna KR þrisvar í einni seríu.“



Mikilvægi Lewis Clinch  í úrslitakeppninni

Stig að meðaltali í leik

Í sigurleikjunum (7):    24,1

Í tapleikjunum (5):    15,6

Framlag að meðaltali í leik

Í sigurleikjunum (7):    23,0

Í tapleikjunum (5):    12,2

3ja stiga körfur í leik

Í sigurleikjunum (7):    3,1

Í tapleikjunum (5):    1,6

3ja stiga skotnýting

Í sigurleikjunum (7):    46 prósent

Í tapleikjunum (5):    30 prósent


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×