Innlent

Meiri umhyggja borin fyrir stúlkum en drengjum

Heimir Már Pétursson skrifar
Menntamálaráðherra segir áhyggjuefni að íslenskir grunnskólanemendur komi ver út í lesskilngi í PISA-rannsókn í fyrra en í fyrri mælingum. Leskunnátta sé nauðsynleg til undirbúnings í almennum störfum og þátttöku í þjóðfélaginu. En tíundi bekkingar sem fréttastofa ræddi við hafa ekki mikla trú á PISA könnunum og telja þær gallaðar.

PÍSA rannsóknin á síðasta ári var til umfjöllunar á Alþingi í dag, en síðustu mælingar benda til að árangur íslenskra nemenda fari hrakandi, sérstaklega í almennu læsi, sem og skilning í stræð- og náttúrufræði og hallar mjög á strákana í þessum efnum. Menntamálaráðherra segir þetta gerast þrátt fyrir góðan ytri aðbúnað grunnskólans.

„PISA mælir ekki sköpunarkraft , hæfni til þátttöku í lýðræðislegri umræðu eða þann almenna þroska sem felst í góðri menntun. En hins vegar verður ekki horft fram hjá því að góður lesskilningur, að skilja og meta tölulegar stærðir og þekkja til þeirra fræða sem varpa ljósi á þróun náttúrunnar er nauðsynleg forsenda til þess að einstaklingur geti menntast til starfa og þátttöku í nútíma þjóðfélagi,“ sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra þegar hann gaf Alþingi skýrslu um PISA rannsóknina á Alþingi í dag.

Einhverra hluta vegna gengur íslenskum grunnskólanemdendum ver í stærðfræði og leshæfileiki þeirra er verri en í grunnskólum annarra landa. Og strákum líður einhverra hluta vegna ver í grunnskólanum en stelpum samkvæmt rannsóknum.

Þau Eysteinn Aron Halldórsson, Hallgrímur Kjartansson og Sigurlaug Birna Guðmundsdóttir sem öll eru í tíunda bekk Háteigsskóla telja að grunnskólakrökkum líði almennt vel í skólanum. En hvers vegna gengur strákunum ver en stelpunum almennt?

„Ég held þeir lesi ekki nógu mikið. Þeir eru meira í tölvuleikjum og sjónvarpi ,“ segir Hallgrímur og á þar við bækur. Þá hafi niðurstaðan í könnunni engin þýðngu fyrir nemdendurna persónulega.  Hann telur að það myndi bæta stöðuna ef nemendur þyrftu að sitja út próftímann í PISA könnuninni.

„Þannig að það ætti að sleppa því að leyfa þeim að fara, því ég held þeir nenni þessu ekki og fari strax,“ segir Hallgrímur.

Eysteinn Aron og Sigurlaug Birna taka undir þetta. En finnst Sigurlaugu að það þurfi að breyta einhverju í skólanum til að bæta árangurinn?

„Nei, nei. Þetta gengur bara vel. En þessi PISA könnun virkar ekki fyrir alla,“ segir Sigurlaug og segist ekki hafa mikla trú á PISA. Eysteinn  Aroner sammála því.

„Þessi PISA könnun er dálítið gölluð og virkar ekki fyrst krakkarnir fá að fara fyrr út. Þá held ég að þau geri það bara og fari heim í tölvuna,“ segir Eysteinn Aron.

Ásgeir Beinteinsson skólastjóri  Háteigsskóla segir vandann á vissan hátt menningarlegan þegar kemur að muninum á árangri stúlkna og drengja.

„Það sem hefur slegið mig í rannsóknum margra undanfarinna ára er að við berum meiri umhyggju fyrir stúlkunum, kúltúrinn okkar, samfélagið okkar. Við höfum meiri metnað fyrir stúlkurnar, við viljum vita hvar þær eru, við viljum vita hverjir vinir þeirra eru. Þetta gerum við ekki í jafn ríkum mæli gagnvart drengjunum. Þannig að þeir fá svolítið að vera sjálfala, því miður,“ segir Ásgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×