Lífið

Heldur áfram þrátt fyrir sonarmissinn

Ellý Ármanns skrifar
myndir/einkasafn Söndru
Sandra Ýr Grétarsdóttir, sem verður 21 árs á þessu ári, keppir í módelfitness á IFBB Íslandsmótinu sem fram fer um páskana. Sandra hefur gengið í gegnum vægast sagt erfiða reynslu en drengurinn hennar féll frá aðeins átján mánaða gamall. Fjölskylda Söndru stendur þétt við bakið á henni og í dag á hún fallega stúlku, Magdalenu. Við ræddum við Söndru um keppnina og þennan erfiða missi en hún er staðráðin í að halda áfram í fitnessíþróttinni.

Eignaðist Gabriel

„4. janúar 2011 eignaðist ég mitt fyrsta barn, Gabriel Reyni. Áður en ég eignaðist hann var ég búin að vera á fullu í fótbolta og körfubolta með Grindavík og hef stundað það síðan ég var lítil. Líkaminn var allur orðinn frekar slappur eftir barnsburðinn þannig að ég ákvað að fara í ræktina á fullu,“ útskýrir Sandra spurð af hverju hún ákvað að byrja að lyfta lóðum.

„Næsta skref hjá mér var að fara í módelfitness sem ég er mjög ánægð með að hafa gert því mig langaði að gera betur og þar sem ég er með mikið keppnisskap fannst mér þetta mjög spennandi ögrun fyrir mig. Ég fór í fjarþjálfun hjá Betri árangur.is og allt gekk ofur vel og mér leið mjög vel með líkama minn.„

„Fyrsta mótið sem ég fór á var hjá Wbff en ég lenti þar í 4.sæti í +163cm bikini módel flokknum á Evrópumóti WBFF 2011. Seinna mótið mitt var hjá IFBB og þá lenti ég í 5.sæti í unglingaflokki.  Ég kynntist fullt af æðislegu fólki á fyrstu mótunum mínum og fjöldskyldan var mér mikill stuðningur.“ 

Fjölskyldan styður mig

„Eftir þessi mót var ég staðráðin í að gera enn betur en þá gerðist það sem mér hefði aldrei dottið í hug að myndi gerast fyrir mig því þann 21.júni 2012 var litli strákurinn minn Gabriel Reynir bráðkvaddur aðeins 18 mánaða gamall. Ég hef átt mjög erfitt eftir dauðsfall hans og er þetta ótrúlega erfitt en ég á æðislega fjöldskyldu og fólk í kringum mig sem hefur staðið við bakið á mér allan þennan tíma og verið mér sem klettur. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra,“ segir Sandra.



Sandra, Elvar Jónsson og Magdalena.
Þetta er það erfiðasta sem hægt er að ganga í gegnum

Þegar talið berst að fráfalli Gabríels segir Sandra:
 „Hann er ávallt í huga mínum. Það líður ekki stund né staður að ég hugsi ekki um hann. Þetta er það erfiðasta sem hægt er að ganga í gegnum - að missa barnið sitt - en hann dó svokölluðum vöggudauða. Skyndidauði ungbarna er nú skilgreindur þannig að um sé að ræða óvænt og skyndilegt dauðsfall hjá ungbarni, sem áður var talið heilbrigt. Dauðsfall sem ekki er hægt að finna neina læknisfræðilega skýringu á með vandaðri krufningu og þeim rannsóknum sem henni tengjast.“

„Líðan mín er mjög misjöfn og mun þetta vera eilífðarverkefni sem ég er að takast á við. En með því að hafa góða fjölskyldu og vini í kringum sig þá styrkist maður.“

Varð ólétt sama ár og Gabríel féll frá  - eignaðist Magdalenu


„Sama ár varð ég ólétt aftur og eignaðist mitt annað barn þann 14.júní 2013 og þá stelpu sem heitir Magdalena Mjöll. Eftir að ég eignaðist Magdalenu ákvað ég að láta ekkert stoppa mig og fór á fullt í líkamsræktina á ný. Það tók mig samt sem áður smá tíma að byrja.“

„Í dag keyri ég á milli Grindavíkur og Keflavíkur nánast upp á hvern einasta dag, nema á hvíldardegi. Þar fer ég að æfa í Lífsstíl og er í einkaþjálfun hjá yndislegasta þjálfaranum Ásdísi Þorgilsdóttur sem heldur úti síðunni einka.is. Ég er ótrúlega ánægð hjá henni og það gengur allt rosalega vel.“

„Undirbúningurinn hjá mér hófst sirka tuttugu vikum fyrir mót og ég byrjaði þá strax í að byggja mig upp aftur. Ég lyfti sirka sex sinnum í viku og ég byrjaði að taka til í mataræðinu. Nú er ég aðeins farin að bæta við interval hlaupum með. Þegar líður að keppni mun ég sennilega æfa tólf sinnum í viku. Ég tek þá brennslu á morgnana klukkan sex og lyfti seinna um daginn," segir þessi duglega mamma og keppniskona.

Sandra og fallegi drengurinn hennar Gabriel Reynir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.