Lífið

Áskorun að lifa á tekjum námsmanna

Ugla Egilsdóttir skrifar
Inga með skó sem hún þarf líkast til að skipta út í vikunni.
Inga með skó sem hún þarf líkast til að skipta út í vikunni. Fréttablaðið/Valli
Ungir jafnaðarmenn standa fyrir áskorun í þessari viku sem nefnist Hungurleikar LÍN.

Þátttakendur í Hungurleikunum þurfa að lifa á 2.050 krónum á dag, sem eru ráðstöfunartekjur námsmanna á lánum frá LÍN að undanskildum húsnæðiskostnaði.

Áskorunin stendur frá miðnætti aðfaranótt 20. janúar til miðnættis viku seinna. Þátttakendum er gert að taka myndir af útgjöldum sínum meðan á áskoruninni stendur og merkja myndirnar á Instagram með kassmerkinu #HungurleikarLÍN.

Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir, varaformaður Ungra jafnaðarmanna, ætlar að taka þátt.

Henni hefur gengið ágætlega í áskoruninni hingað til. „Leikarnir hófust á miðnætti og ég er ekki búin að eyða neinu í dag.“

Hún spáir því að gamanið kárni síðar í vikunni. „Skórnir mínir eru að detta í sundur. Þegar það gerist neyðist ég til að kaupa mér nýja skó vegna þess að þetta er síðasta skóparið mitt.

Svo sé ég fram á að kaupa mér getnaðarvarnir á miðvikudaginn. Þá er helmingurinn af vikupeningunum farinn.“

Hún segist þó eiga fyrir þessum útgjaldaliðum sjálf alla jafna.

„Ég kemst upp með þetta í lífinu. Ég er ekki á lánum frá LÍN og er ekki í námi, en ég myndi þurfa alla þessa hluti ef ég væri í námi.“

Í reglunum kemur fram að engin útgjöld nema húsnæðisgjöld séu undanskilin í leiknum.

„Það er bannað að birgja sig upp af vörum áður en leikurinn hefst, og það er líka bannað að svindla og fresta til dæmis tannlæknatímum þangað til í vikunni á eftir.“

Grunnframfærsla LÍN þetta skólaár er 144.867 krónur á mánuði

„Stúdentaráð hefur reiknað út að námsmenn hafi aðeins 1.300 krónur í mat á dag og 750 krónur í allt annað að undanskildu húsnæði, og við miðum við þeirra útreikninga.

Þessi upphæð dugir ekki til að lifa mannsæmandi lífi. Ég er búin að fara bæði til tannlæknis og augnlæknis í þessum mánuði.

Læknisheimsóknirnar kostuðu mig sextíu þúsund krónur. Ef ég þyrfti að lifa á námslánum gæti ég ekki borðað í rúman mánuð eftir þetta, nema með því að taka yfirdrátt.“

Tuttugu manns hafa skráð sig fyrirfram til þátttöku í Hungurleikum LÍN. Öllum er þó heimilt að taka þátt á Instagram.

„Við vonum að sem flestir taki þátt, og sérstaklega yfirvöld. Það væri gaman að sjá menntamálaráðherra reyna að lifa á 2.050 krónum á dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.