Innlent

Félagsmenn kjósa um verkfall

Jóhanna Margrét Einarsdóttir og Gunnar Leó Pálsson skrifar
Læknar eru orðnir langþreyttir. Átta mánuðir eru síðan kjarasamningar þeirra runnu út.
Læknar eru orðnir langþreyttir. Átta mánuðir eru síðan kjarasamningar þeirra runnu út.
„Við munum kynna þessar aðgerðir sem við ræddum á fundinum seinna í vikunni fyrir félagsmönnum. Í framhaldi af því förum við í atkvæðagreiðslur um tillögurnar,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Stjórn læknafélagsins kom saman til fundar síðdegis í gær þar sem rætt var um væntanlegar verkfallsaðgerðir meðal félagsmanna. „Við erum með tillögu sem stjórnin lagði blessun sína yfir og ég geri ráð fyrir að það fari fram rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna eftir að við höfum kynnt þetta, þar sem við leitum eftir samþykki þeirra við þessum aðgerðum,“ útskýrir Þorbjörn.

Hann telur mjög líklegt að félagsmenn samþykki verkfallsaðgerðir. „Verkfallið brestur á seinnipart október ef tillagan verður samþykkt,“ bætir hann við.

Þorbjörn Jónsson
Kjarasamningar lækna hafa verið lausir í átta mánuði. Kjaradeilu þeirra var vísað til ríkissáttasemjara í sumar.

„Það er búið að halda marga árangurslausa fundi í þessari kjaradeilu,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands.

Hún segir að læknum hafi verið boðin 2,8 prósenta hækkun launa eða svipuð hækkun og samið var um á almenna markaðnum um síðustu áramót. Þetta finnst læknum hins vegar allt of lítið. Þeir vilja ekki greina frá því hversu mikillar hækkunar þeir krefjast en segja að þeir fari fram á verulegar kjarabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×