Innlent

„Ég hef aldrei fordæmt gula eða þeldökka“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Guðni dregur hvergi af sér í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og segir ritsóða reyna að hafa æruna af Framsóknarflokknum.
Guðni dregur hvergi af sér í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og segir ritsóða reyna að hafa æruna af Framsóknarflokknum.
„Ég hef aldrei fordæmt gula eða þeldökka, aðeins einu sinni gripið til orða skáldsins um „Ísland fyrir Íslendinga,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í grein sem Morgunblaðið birtir í morgun. Fyrirsögn greinarinnar er: „Ég ákæri ritstjóra DV og Fréttablaðsins“.

Guðni dregur hvergi af sér en hann hefur grein sína á þessum orðum: „Ritsóðar sem einskis svífast í pólitískum fordómum vilja nú reyna hið ómögulega, að hirða æruna af Framsóknarflokknum og forystumönnum hans í eitt hundrað ár, lífs og liðnum. Þar gefa ekki síst tóninn bæði Fréttablaðið og DV og nettröllin fylgja eftir og níðast á öllu og öllum og framsóknarmenn eru taldir óalandi og óferjandi, allt römm hatursskrif.“

Ljótasta pólitíska skopmynd sem birst hefur, segir Guðni og fordæmir Ólaf Stephensen vegna birtingar hennar.
Guðni er að vísa til umræðunnar sem spratt upp í kjölfar útspils Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita Framsóknarmanna í Reykjavík, í kosningabaráttu í nýafstöðunum sveitarstjórnarkosningum; þess efnis að hún vilji að lóðaúthlutun til Félags múslima á Íslandi verði dregin til baka. Það útspil hafi, að sögn Guðna, gefið hatursfullum mönnum tilefni til að leiða umræðuna útí forarmýri. Guðni segir að Sveinbjörg Birna hafi vegna reynsluleysis gengið lengra en hún réð við, en það afsaki ekki árásirnar, að sögn Guðna. „Ljótasta pólitíska mynd sem birst hefur á Íslandi var skopmynd Fréttablaðsins á kjördag þar sem fulltrúi flokksins í Reykjavík var meðal leiðtoganna hjúpuð sem alþjóðlegur glæpamaður og morðingi. Hafðu skömm fyrir Ólafur Stephensen,“ skrifar Guðni, og honum er heitt í hamsi.

Jafnframt lýsir Guðni því yfir að hann og Framsóknarflokkurinn hafi „stutt allar réttindarbætur samkynhneigðra og fagnað mannréttindabaráttu þeirra og frelsi til lífs og ásta," og bætir við: „Guð almáttugur skóp þá eins og okkur hin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×