Knattspyrnusamband Íslands hefur staðfest á heimasíðu sinni breytta leiktíma í lokaumferð Pepsi-deildar karla sem fram fer á laugardaginn.
Upphaflega áttu allir leikirnir að hefjast klukkan 14.00, en vegna úrslitaleiks FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn hafa leikirnir verið færðir til.
Allir leikirnir fimm nema úrslitaleikurinn hefjast klukkan 13.30 og verður viðureign Fram og Fylkis sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Úrslitaleikur FH og Stjörnunnar hefst svo klukkan 16.00 og verður vitaskuld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Dagskráin á Stöð 2 Sport í kringum leikina verður vegleg, en hún hefst klukkan 13.00 með upphitunarþætti Pepsi-markanna þar sem Tómas Ingi Tómasson og Þorvaldur Örlygsson verða sérfræðingar.
Hörður Magnússon lýsir svo leik Fram og Fylkis klukkan 13.30, en þar geta Framarar fallið eftir átta ára samfellda veru í efstu deild.
Að honum loknum taka sérfræðingarnir aftur við í myndveri í Skaftahlíð og verður svo skipt yfir á Reyni Leósson og HjörvarHafliðason sem hita upp fyrir úrslitaleikinn í beinni útsendingu frá Kaplakrika.
Úrslitaleikurinn hefst svo klukkan 16.00 sem fyrr segir, en að honum loknum gera allir sérfræðingarnir, bæði í myndveri og á staðnum, leikinn upp til klukkan 19.00.
Þá verður veislan á Stöð 2 Sport rétt að hefjast því klukkan 19.00 hefst útsending frá UFC-bardagakvöldinu í Stokkhólmi þar sem GunnarNelson berst í aðalbardaga kvöldsins.
Eftir hann, eða klukkan 21.15, hefst svo fyrri þáttur Pepsi-markanna þar sem lokaumferðin verður gerð upp. Eftir hann verður svo uppgjörsþáttur Pepsi-markanna, en hann hefst klukkan 22.30 og lýkur korter fyrir miðnætti. Báðir þættirnir af Pepsi-mörkunum verða í opinni dagskrá og einnig sýndir á Vísi.
Ellefu tíma samfelld íþróttaveisla á Stöð 2 Sport á laugardaginn, þar af níu klukkutímar af efni frá Pepsi-deild karla í fótbolta.
Leikirnir í lokaumferðinni:
13.30 Breiðablik - Valur
13.30 Keflavík - Víkingur
13.30 Fram - Fylkir (Stöð 2 Sport)
13.30 Fjölnir - ÍBV
13.30 KR - Þór
16.00 FH - Stjarnan (Stöð 2 Sport)
Dagskráin á Stöð 2 Sport á laugardaginn:
13.00 Upphitun Pepsi-markanna
13.30 Fram - Fylkir
15.25 Upphitun fyrir úrslitaleikinn
16.00 FH - Stjarnan með verðlaunaafhendingu og umræðum
19.00 Gunnar Nelson berst við Rick Story
21.15 Pepsi-mörkin gera upp 22. umferðina
22.30 Uppgjörsþáttur Pepsi-markanna
Íslenski boltinn