Erlent

Rússland mun virða útkomu kosninga í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín var í Sankti Pétursborg í dag.
Vladimír Pútín var í Sankti Pétursborg í dag. Vísir/AP
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í dag að stjórnvöld í Rússlandi myndu virða niðurstöðu forsetakosninga í Úkraínu, sem fara fram á sunnudaginn. Hann sagðist einnig vona að nýr forseti myndi stöðva hernaðaraðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu.

Í dag mögnuðust bardagar á milli Úkraínuhers og aðskilnaðarsinna, en samkvæmt tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Úkraínu, féllu yfir 20 aðskilnaðarsinnar og einn hermaður. Blaðamenn AP fréttaveitunnar sáu þar að auki þrjú lík í dag, Í Donetsk.

Samkvæmt ráðuneytinu réðust allt að 500 manns á bílalest hermanna í gær og stóð bardagi yfir klukkutímum saman. Þetta gerðist í Luhansk héraði Úkraínu sem hefur lýst sjálfstæði frá landinu, en þær gátu ekki verið sannreyndar af AP.

Starfandi forseti Úkraínu hvatti í dag alla íbúa landsins til að taka þátt í kosningunum, en óvíst er hvort kosið verði í austurhluta landsins. Átök og hótanir gegn kosningastarfsmönnum hafa ollið óvissu á svæðinu.

Pútín hélt ræðu í Sankti Pétursborg í dag þar sem hann sagði að stjórnvöld í Rússlandi myndu eiga í samstarfi við nýjan forseta Úkraínu. Hann sagði Rússland vilja frið og reglu í nágrannaríki sínu.

Hann talað einnig um að lagfæra samband Rússlands og Bandaríkjanna, sem og samband Rússlands við 28 ríki Evrópusambandsins. Bandaríkin og ESB hafa beitt töluverðum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi á undanförnum vikum og mánuðum. Einnig hefur Rússum verið hótað frekari þvingunum muni þeir ekki virða niðurstöðu forsetakosninganna.

Forsetaframbjóðendur eru 21 talsins en samkvæmt könnunum er Petro Poroshenko með mest fylgi. Greinendur AP fréttaveitunnar segja hann hliðhollan vesturveldunum.

Íbúi í austurhluta Úkraínu er hér fyrir utan hús sitt þar sem sprengja lenti á dögunum.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×