Skoðun

Skilum peningunum aftur til skólanna

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

VG og félagshyggjufólk vilja að Kópavogsbær skili aftur þeim fjármunum sem teknir hafa verið frá leik- og grunnskólum bæjarins frá Hruni. Börnin okkar eiga það skilið! Framboðið mun leggja höfuðáherslu á að forgangsraðað verði í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Að fjárfesta í börnum er fjárfesting til framtíðar og til heilla fyrir samfélagið allt.



Frá Hruni hefur verið skorin niður þjónusta við börn í leik- og grunnskólum Kópavogs á hverju ári. Á skólaárinu 2013- 2014 var því skorið niður í 6. Árið í röð til skólanna. Alls hafa verið teknar um 800 milljónir út úr skólakerfinu í Kópavogi. Börnin okkar bera ekki ábyrgð á Hruninu og bæjarfélag sem státar sig á góðri afkomu á að láta börnin njóta þess.



Í grunnskólum hafa fjárveitingar verið skornar niður  til forfallakennslu, til kaupa á námsefni, til foreldrasamstarfs (bekkjarkvöld og fleira), félagsstarfa, frímínútnagæslu, vettvangsferða, tækjakaupa og sérkennslu. Þar að auki hefur verið fjölgað í námshópum. Að skera niður til sérkennslu bitnar helst á þeim börnum sem síst skyldi. Slíkt er ekki neinu samfélagi til sóma.



Mikilvægt er að snúa vörn í sókn, veita börnunum okkar aftur þá þjónustu sem þau eiga skilið og bæta aðbúnað í skólum. Til þess að Kópavogur sé samkeppnishæfur við nágrannasveitarfélögin hvað varðar þjónustu leik- og grunnskóla þarf að hlúa vel að þessum málaflokki. Það á að vera eftirsóknarvert fyrir barnafólk að búa í Kópavogi og Kópavogsbær á að vera eftirsóknarverður vinnustaður í mennta- og velferðarmálum.  VGF líta svo á að sveitarfélagið sé sá aðili sem er best til þess fallinn að veita þessa þjónustu, þannig að jafnræði allra barna sé tryggt. Öll börn eiga að njóta sömu tækifæra til að þroskast og njóta hæfileika sinna.  Það mun verða samfélaginu öllu til heilla þegar fram í sækir.



Atkvæði greitt Vinstri VG og félagshyggjufólki Í Kópavogi tryggir forgangsröðun í þágu barna og fjölskyldna þeirra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×