Innlent

Varahlutur náði ekki í flugvél vestur vegna hraðaksturs bílstjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Ísafjörður.
Ísafjörður. Vísir/Pjetur
Íbúar í Holtahverfi á Ísafirði verða vatnslausir eitthvað fram eftir degi þar sem maður sem ók nauðsynlegan varahlut út á Reykjavíkurflugvöll til að hægt væri að senda varahlutinn vestur, var tekinn fyrir of hraðan akstur.

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir í samtali við Vísi að þetta hafi verið mjög sérstök tegund af röri sem fór í sundur. „Við erum með gríðarlegan lager af samtengingum og rörum en því miður vantaði akkúrat þessa tengingu sem fór í sundur.

Þessi samtenging átti að vera í flugvél á leið frá Reykjavík klukkan tíu. Svo varð bílstjórinn fyrir þessu og missti af vélinni. Þá var ákveðið að varahlutnum yrði keyrt strax vestur sem tekur náttúrulega dágóða stund, en hann kemur þá um miðjan dag. Á meðan er reynt að koma vatni á eftir öðrum leiðum.“

Gísli segist hafa beðið um að þeim skilaboðum yrði vandlega komið áleiðis til þess sem myndi keyra varahlutinn vestur að keyra alla leið heilu og höldnu og á löglegum hraða. „Ég vona að það verði þannig. Hann lagði af stað upp úr klukkan 10 svo þetta ætti að vera komið fyrir kaffi.“

Uppfært kl 14:00.

Í tilkynningu frá bæjarstjóra Ísafjarðafjarðarbæjar segir að vatn sé nú aftur komið á í Holtahverfi á Ísafirði. „Bæjaryfirvöld ítreka afsökunarbeiðni vegna þessara atvika.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×