Innlent

Læknar segja kjarabót einu leiðina til að laða lækna aftur heim

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. Vísir/Anton/GVA
Læknafélag Íslands segir að til þess að fá lækna til Íslands þurfi að bæta kjör þeirra. Að óbreyttu fari ástandið í mörgum sérgreinum, sem þegar sé óviðunandi, versnandi. Þetta kemur fram í ályktun félagsins frá aðalfundi þess sem haldinn var í dag og í gær.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, opnaði fundinn og fór yfir stöðu heilbrigðismála. Sagði hann að ástand á Landspítala og í heilsugæslunni hefði farið versnandi frá hruni. Læknar hefðu um margra ára skeið varað við því að niðurskurður í heilbrigðismálum væri orðinn óhóflegur.

„Því miður hefði ekki verið tekið mark á varnarorðum lækna. Staða mála væri því orðin sú að fáir ef nokkrir læknar sæki um lausar stöðu,“ segir í tilkynningu frá Læknafélaginu.

Vöntun á heimilislæknum

Þá sagði Þorbjörn að sárlega vanti heimilislækna til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Að víða á landsbyggðinni væru fáir ef nokkrir fastráðnir heimilislæknar. Hann sagði einnig að undirmönnun væri á mörgum sérgreinum á Landspítalanum og nefndi þar krabbameinslækningar og myndgreiningu.

„Tölur sýni að tæplega 70 læknar flytji brott árlega og samtals hafi 330 læknar með lækningaleyfi flutt af landi brott á síðustu fimm árum. Á sama tíma hafi 140 læknar flutt til landsins eða tæplega 30 ár ári.“

Hann sagði einnig að á næstu árum fari 135 læknar á eftirlaun og það væri tvöfalt meiri fjöldi en undanfarin ár. Að læknaskorturinn væri orðinn viðvarandi og íbúum á hvern lækni fjölgi á sama tíma og þeim fækki á Norðurlöndunum.

Þrátt fyrir að framlög til heilbrigðismáli hafi verið aukin í fjárlögum 2014 og einhver aukning væri í fjárlagafrumvarpi 2015, væri það ekki nóg til að snúa þróuninni við.

Þorbjörn sagði kjarna málsins vera að kjör lækna hér á landi væru engan veginn sambærileg við þau kjör sem læknum standi til boða erlendis og þá ekki síst á Norðurlöndunum.

Kjarabót eina lausnin

Nú hafa læknar verið samningslausir í um átta mánuði og Þorbjörn sagði þá vera mjög óþreyjufulla. Sagði hann að eina leiðin nú væri að tryggja læknum umtalsverða kjarabót í þeim kjarasamningum sem í gangi séu.

Þá ávarpaði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, aðalfundinn og svaraði fyrirspurnum lækna. Samkvæmt tilkynningunni frá félaginu var mikill þungi í umræðu lækna við ráðherra og bar þar mest á mikilvægi þess  að í yfirstandandi kjaraviðræðum myndu læknar fá þær kjarabætur sem þyrfti. Svo hægt væri að laða íslenska lækna erlendis heim á ný.

Á aðalfundinum var haldið málþing undir yfirskriftinni: Er blandað rekstrarform lausnin á læknaskortinum?

Ályktun Læknafélags Íslands:

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn að Hlíðarsmára í Kópavogi 25. og 26. september 2014 telur læknaskort ógna íslenskri heilbrigðisþjónustu. Í mörgum sérgreinum læknisfræðinnar er ástandið óviðunandi og fer versnandi að óbreyttu.

Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að gera íslenskt heilbrigðiskerfi að fýsilegum atvinnuvettvangi fyrir lækna á ný með því að leiðrétta kjör þeirra. Þannig má snúa við þróuninni og fá lækna til starfa á Íslandi.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×