Innlent

Slysið við Þríhnúkagíg: Konan sem slasaðist er leiðsögumaður

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá björgunarstarfinu fyrr í dag.
Frá björgunarstarfinu fyrr í dag. Vísir/Stefán.
Konan sem er á gjörgæslu eftir um sjö metra fall í sprungu við Þríhnúkagíg er leiðsögumaður á vegum 3H Travel. Hún var að leiðbeina hópi ferðamanna þegar slysið átti sér stað.

Óvíst hvernig slysið bar að

Björn Ólafsson, framkvæmdastjóri 3H Travel, er staddur á svæðinu. Hann segir að allt bendi til þess að konan hafi staðið á barmi sprungunnar og verið að benda ferðamönnum ofan í sprunguna þegar hún féll.

„Þetta er lítil sprunga rétt hjá bílastæðinu, kannski um metri á breidd,“ segir Björn. „Hún hefur verið að sýna fólkinu eitthvað ofan í sprungunni, landrek eða eitthvað slíkt, þegar henni skrikaði fótur eða hún rann á einhverju. Blautum mosa kannski.“

Karlmaður á sjötugsaldri sem var í hópi ferðamannanna féll einnig ofan í sprunguna en slasaðist ekki jafn illa. Björn segir að ekki sé alveg ljóst hvernig fall mannsins bar að. Sennilega hafi hann staðið við hlið konunnar og annað hvort dottið við að reyna að aðstoða hana eða vegna þess að honum hafi orðið bilt við.

Voru ekki á hættulegum stað

Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna er enn á svæðinu ásamt lögreglumönnum í vettvangsrannsókn. Að sögn Björns gekk vel að hífa hin slösuðu upp úr sprungunni og hafa þau nú bæði verið flutt á Landspítalann í Fossvogi.

Björn segir það vissulega einkennilegt að konan, sem er reyndur leiðsögumaður, hafi slasast á leið að gígnum. Sprungan sé ekki á sérstaklega hættulegum stað.

„Slysin geta alltaf gerst,“ segir Björn. „Manni getur alltaf skrikað fótur eða eitthvað komið fyrir. En þetta er óvenjulegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×