Skoðun

Græn höfuðborg

Skúli Helgason skrifar
Meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins í Reykjavík hefur staðið dyggan vörð um grænar áherslur á kjörtímabilinu og nú þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks grefur markvisst undan vægi umhverfismála við landsstjórnina er mikilvægt að Reykjavíkurborg spyrni fast við fótum og taki forystu í þessum málaflokki.

Ég leiddi á sínum tíma stefnumörkun Alþingis um eflingu græna hagkerfisins í góðu samstarfi við fulltrúa allra þingflokka. Stefnan fól í sér tillögur um fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, fræðslu á öllum skólastigum, hagræna hvata til að efla umhverfisstjórnun og orkuskipti, áherslu á vistvæn innkaup o.fl.

Ríki heims hafa litið til græna hagkerfisins til að vega á móti skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga af manna völdum og undirstrika mikilvægi sjálfbærrar þróunar þar sem breytni okkar í dag er sett í siðferðilegt samhengi við hag komandi kynslóða.

Reykjavíkurborg hefur þegar sýnt vilja sinn í verki með grænum áherslum í atvinnustefnu og nýju aðalskipulagi. Þá má nefna Græn skref, umhverfisstjórnunarkerfi sem þróað var í samstarfi við Harvard háskóla og gengur út á að efla vistvænan rekstur og minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins með kerfisbundnum hætti. Verkefnið hefur staðið í rúm 3 ár og taka nú þátt 95 vinnustaðir borgarinnar.

Ný ríkisstjórn ákvað að fella úr gildi ákvarðanir Alþingis um fjárveitingar til græna hagkerfisins þvert á eigin yfirlýsingar um mikilvægi fjárfestinga. Nú er því þörf á nýrri forystu fyrir græna hagkerfið og þar er Reykjavíkurborg kjörin. Borgin á t.d. að taka forystu fyrir vernd gegn mengun hafsvæða og hafnarsvæða í samvinnu við háskóla, sérfræðinga og frumkvöðla í atvinnulífinu í grænni tækni.

Gríðarlegir hagsmunir liggja í því fyrir Ísland að aukin skipaumferð á norðurslóðum leiði ekki af sér stóraukna mengun og hættu á umhverfisslysum á fiskimiðum, einni helstu auðlind þjóðarinnar.

Ég vil beita mér fyrir því að Reykjavík beiti sér sem höfuðborg græna hagkerfisins í góðu samstarfi við önnur sveitarfélög, félagasamtök og almenning og haldi grænum áherslum hátt á lofti við kynningu á borginni á erlendum vettvangi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×