„Ég ásamt þremur bandarískum félögum mínum er með fyrirtækið T3 Music Group og við uppgötvuðum Miles árið 2012 og gerðum samning við hann. Það má alveg segja að hann sér nokkurs konar Justin Bieber rappsins því hann semur tónlist eins og enginn annar,“ segir Benni Ben spurður út í upphaf samstarfsins.
Benni fór í nám til Flórída árið 2009 í upptökufræðum og kynntist þar félögum sínum sem stofnuðu svo með honum fyrirtækið T3 Music Group. „Við vissum strax að þarna væri virkilega hæfileikaríkur piltur á ferðinni og eftir stuttan tíma fóru stærri fyrirtæki að sýna honum áhuga og varð svo stærðarinnar samningur að veruleika núna í maí,“ bætir Benni við.
Hann starfar nú sem upptökustjóri Miles, ásamt öðrum bandarískum félaga sínum en hinir tveir starfa sem umboðsmenn rapparans unga. „Við í T3 Music Group skiptum þessu á milli okkar.“

Piltarnir í Redd Lights dvöldu þó úti í New York í vetur, þar sem Benni býr, og unnu með Miles. „Þeir voru úti hjá mér í vetur og unnu mikið með Chris. Við erum að gera mörg góð lög með honum.“ Redd Light hafa einmitt einnig gert samning við T3 Music Group.
Í dag vinnur Benni ásamt félögum sínum í T3 Music Group, Redd Lights og fleiri erlendum pródúserum að fyrstu plötu Chris Miles. „Við stefnum á að gefa plötuna út í vetur, líklega fyrir jól. Við höfum fengið frábær viðbrögð og hlakka ég til að sjá hvernig þetta fer.“
Hver er Chris Miles?
Hann var kynntur til sögunnar á heimsvísu í síðustu viku og er strax orðinn mjög vinsæll.
Hann er fimmtán ára gamall og er frá Long Island í New York.
Hann hefur gert samning Warner/Chappell Music sem er hluti af Warner Music Group og er eitt stærsta útgáfufyrirtæki í heiminum.
Hann er rosalega vinsæll á Twitter með tæpa fimmtán þúsund fylgjendur og með yfir 40.000 þúsund áskrifendur á Youtube.
Honum er líkt við Eminem og fer í viðtal í næstu viku á útvarpsstöðinni Shade 45, sem er einmitt í eigu Eminem.