Þjóðhátíðardagur Íslendinga var ansi vætusamur víðast hvar um landið. Úrkomumet var slegið á höfuðborgarsvæðinu, en þessi dagur, 17. júní, hefur aldrei verið eins vætusamur á höfuðborgarsvæðinu frá því mælingar hófust árið 1949.
Sólarhringsúrkoma mældist 22 mm en árið 1988 mældist hún 13 mm. Þá er þetta mesta mælda úrkoma þetta árið á höfuðborgarsvæðinu. Reykvíkingar létu vætuna þó ekki mikið á sig fá og var miðbærinn nokkuð vel sóttur, þó heldur minna en síðastliðin ár. Tónleikarnir á Arnarhóli í gærkvöld voru minna sóttir en gert var ráð fyrir en fjölmargar hljómsveitir stigu á stokk og skemmtu viðstöddum.
Einhver rigning verður á landinu öllu næstu daga, en hér má sjá veðurspá næstu daga.
Á föstudag:
Snýst í hæga norðlæga átt, en vestlægari 5-10 m/s við SV- og S-ströndina. Dálítil rigning eða súld, en úrkomulítið SA-lands. Hiti 10 til 16 stig.
Á laugardag:
Norðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s, og rigning eða skúrir í flestum landshlutum. Hiti 6 til 13 stig.
Á sunnudag:
Hægviðri og víða skúrir, en skýjað með köflum V-til. Heldur hlýnandi.
Á mánudag:
Suðaustlæg átt og bjart með köflum fyrir norðan, en lítilsháttar væta sunnan- og austantil. Hiti víða 10 til 15 stig.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir austanátt með vætu um sunnanvert landið. Áfram hlýtt í veðri.

