Lífið

Facebook hélt að tónleikaauglýsing væri megrunaráróður

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Ég bjó til auglýsingu út af því að þetta er nýbreytni hjá okkur að bjóða uppá súpu á tónleikum. Svo setti ég saman þessar myndir og setti á síðuna okkar. Því næst fékk ég tilkynningu um að auglýsingin hefði ekki verið samþykkt og var frekar hissa,“ segir Ísgerður Gunnarsdóttir hjá Mengi.

Auglýsinguna sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan en hún var búin til til að auglýsa hádegistónleika á morgun í Mengi með sveitinni My bubba. Forsvarsmenn Facebook héldu að auglýsingin innihéldi óviðeigandi megrunaráróður og bönnuðu hana því.

Auglýsingin sem Facebook bannaði.
 „Þegar ég bað um nánari útskýringar kom upp síða með megrunarmyndum og texti um að það mætti ekki setja inn auglýsingar á Facebook með fyrir og eftir myndum þar sem Facebook leyfi ekki auglýsingar sem segi fólki til um hvernig líkami þess á að vera,“ segir Ísgerður og finnst þessi atburðarrás frekar fyndin.

„Facebook misskildi aðeins myndasamsetninguna mína. Ég held að þetta hafi gerst af því að myndin með textanum My bubba er með hluta af hendi inná og þeir hafa líklega tekið því sem fyrir og eftir mynd. En það er líka fyndið því þetta er úlnliður. Ég held að sá líkamshluti verði seint tekinn sem dæmi um hvar maður eigi að grenna sig,“ segir Ísgerður hlæjandi og bætir við að þetta hafi engin áhrif á tónleikana sem byrja stundvíslega klukkan 12.00 á morgun í Mengi á Óðinsgötu 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×