Lífið

Hita upp fyrir Damien Rice

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Þær Bubba og My hafa spilað víða um heim undanfarin ár.
Þær Bubba og My hafa spilað víða um heim undanfarin ár. Mynd/Karolína Thorarensen
„Tónlist myndar oft svo skemmtileg tengsl við fólk og ferðast með mann á óvænta staði,“ segir Guðbjörg Tómasdóttir, kölluð Bubba, í hljómsveitinni My bubba. Hljómsveitin er á leið í tveggja mánaða tónleikaferðalag og mun meðal annars hita upp fyrir írska tónlistarmanninn Damien Rice á þrennum tónleikum.

„Við kynntumst Damien þegar við vorum að spila á KexKöntrí-hátíðinni í sumar. Eftir eitt kvöldið á hátíðinni safnaðist hópur af tónlistarfólki saman í lítilli íbúð og spilaði heimatilbúna tónlist alla nóttina. Svo spurði hann okkur hvort við vildum hita upp fyrir hann í Evrópu þar sem við vorum með bókaðan túr þar á svipuðum slóðum og hann.“

Hljómsveitin hefur verið til í um fimm ár en hana skipar ásamt Bubbu My Larsdotter auk þess sem oft spila með þeim aðrir hljóðfæraleikarar. Þær stöllur hafa gefið út tvær plötur og ferðast mikið undanfarin ár og spilað tónlist sína víða um heim. „Það hefur orðið þannig að okkur finnst eiginlega skemmtilegast að spila annars staðar en heima hjá okkur. Við höfum farið í ótal ferðalög um Evrópu og líka um Bandaríkin,“ segir Bubba.

Þær halda í ferðalagið til þess að kynna nýjustu plötu sína, Goes Abroder, sem kemur út hjá Smekkleysu í maí. Ferðalagið hefst með tónleikum í Mengi í hádeginu á föstudag þar sem tónleikagestir geta einnig gætt sér á súpu frá Snaps.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×