Tíska og hönnun

Í sérsaumuðum kjól úr ónothæfum peysum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Una Torfa kom fram á hátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um helgina og rokkaði sérsaumaðan kjól.
Una Torfa kom fram á hátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um helgina og rokkaði sérsaumaðan kjól. Aníta Björk

Tónlistarkonan Una Torfadóttir naut sín í botn á sviðinu á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um helgina. Klæðaburður hennar greip auga blaðamanns sem fékk að heyra nánar frá þessum sérsaumaða kjól sem vinur hennar hannaði sérstaklega fyrir Unu.

Hlýr kjóll fullkominn fyrir útihátíðir

Unu Torfa þarf vart að kynna fyrir lesendum en hún hefur vakið mikla athygli í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár og á þekkta smelli á borð við lagið Fyrrverandi. Þá gerði hún sér lítið fyrir og setti upp söngleikinn Storm í Þjóðleikhúsinu með Unni Ösp sem er innblásin af lögum Unu. 

Það sem færri vita kannski er að Una fór í klæðskeranám í Tækniskólanum.

„Kjóllinn er hannaður og saumaður af Daníel Kristni Péturssyni, góðum vini mínum, sem ég kynntist í klæðskeranáminu. Danni var að vinna hjá 66 norður og tók eftir peysum sem mátti ekki selja vegna framleiðslugalla. 

Hann fékk þessa frábæru hugmynd, að endurnýta peysurnar og búa til hlýjan kjól sem er fullkominn fyrir útihátíðir. Kjóllin kom fyrst með mér á Þjóðhátíð 2024 og svo aftur upp á svið núna á Aldrei,“ segir Una brosandi.

Skiptir mestu máli að geta verið hún sjálf á sviði

Þrátt fyrir að hafa gaman að tísku segist hún ekki oft klæða sig sérstaklega upp fyrir framkomu á sviði.

„Oft er ég bara í mínum venjulegu sparifötum og stundum í einhverju hversdagslegu. Ég held samt að klæðaburður hafi alltaf eitthvað að segja, hvort sem hann er útpældur og ýktur eða ekki. 

Það skiptir mig máli að líða eins og ég sé ég sjálf á sviði, að ég sé jarðtengd og geti verið heiðarleg. Það hentar tónlistinni minni líka vel held ég.“

Peysukjóllinn er hlýr og einstakur.Aníta Björk

Þó sé gaman að ögra sér örlítið.

„Það er mjög skemmtilegt að nýta stóra framkomu sem þessa sem tækifæri til að stækka heiminn minn svolítið. Ég á nokkrar flíkur sem ég keypti sérstaklega með sviðið í huga, gólfsíðir kjólar, glitrandi blússur og háir hælar til dæmis.

Peysukjóllinn var svo fyrsta sérsaumaða flíkin sem ég hef klæðst á sviði og ég er svo þakklát fyrir hann Danna og alla vinnuna sem hann setti í að búa kjólinn til.“

Fiðrildin óumflýjanleg

Una nýtur sín vel á sviðinu og hefur gaman að því að eyða páskunum á Vestfjörðum.

„Stemningin á Aldrei er alltaf frábær. Ég var að koma í fjórða skiptið og naut mín alveg í botn. Það er svo fallega staðið að öllu skipulagi og utanumhaldi, svo er svo fallegt á Ísafirði og andinn góður, þá getur þetta ekki klikkað.“

Fjöldi fólks var í salnum og sömuleiðis voru tónleikarnir í beinni útsendingu.Aníta Björk

Aðspurð hvort hún hafi verið stressuð fyrir þessu stóra giggi segir Una:

„Ég var eiginlega bara spennt að koma fram, ég var búin að fylgjast með Salóme Katrínu mágkonu minni og mjög góðri vinkonu sem spilaði á undan mér og salurinn var svo glaður og fallegur að ég vissi að við myndum skemmta okkur saman. En auðvitað fæ ég alltaf smá fiðrildi í magann.“

Ómetanleg stemning

Samveran með góðu fólki segir Una svo að standi upp úr frá helginni.

„Við þurfum ekk'að vera í bandi,“ gæti Una verið að syngja þarna.Aníta Björk

„Það er svo gaman að fá að vera á Ísafirði í nokkra daga umkringdur gömlum vinum og nýjum. Við fáum að njóta alls konar stunda saman, listamenn og vinir baksviðs að hlæja, yndislega fjölskyldan sem rekur Tjöruhúsið og tekur á móti manni með opnum faðmi, börn og fullorðnir að dansa í Skemmunni við tónlist sem þau elska eða eru að heyra í fyrsta sinn, þessi augnablik og ótal fleiri eru öll Aldrei fór ég suður. 

Fólkið sem stendur að hátíðinni og gefur okkur hinum þessar stundir að gjöf á risastórt hrós skilið og þau eiga allt mitt þakklæti,“ segir Una og bætir við að hún hlakki til að mæta aftur að ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.