Lífið

Samsláttur skapandi greina öflugur á Íslandi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ragnheiður Gestsdóttir, kvikmyndagerðar- og myndlistarkona, stýrir ráðstefnunni en fjölmargir erlendir gestafyrirlesarar munu koma til landsins.
Ragnheiður Gestsdóttir, kvikmyndagerðar- og myndlistarkona, stýrir ráðstefnunni en fjölmargir erlendir gestafyrirlesarar munu koma til landsins. fréttablaðið/ernir
„Allar skapandi greinar koma saman og fókusinn verður á samsláttinn,“ segir Ragnheiður Gestsdóttir, ráðstefnustýra YAIC, eða ráðstefnunnar You Are In Control sem verður haldin í sjöunda sinn í byrjun nóvember.

Að ráðstefnunni standa allar miðstöðvar skapandi greina á íslandi ásamt Íslandsstofu. „Þemað er skapandi samsláttur, um verkefni og skapandi fólk sem vinnur þvert á eða milli listgreina og hvaða nýju tækifæri er að finna í þessum samslætti.“

Ragnheiður segir samslátt vera áberandi í dag og sérstaklega á Íslandi. „Markaðurinn á Íslandi er lítill og fólk þarf því oft að fara úr einu hlutverki í annað. Tónlistarmenn að búa til sín eigin myndbönd og hanna albúmin. Dansarar vinna með vídeólistafólki og tónlistarmönnum, svo eitthvað sé nefnt. Það er oft í þessum núningi sem ófyrirséðir hlutir gerast í skapandi vinnu og það er oft undir skapandi fólki sjálfu að skapa sér tækifæri. Ráðstefnan fæst í rauninni við það sem er að gerast í grasrótinni og hvernig er hægt að efla samsláttinn.“

Ragnheiður segir ráðstefnuna vera fyrst og fremst fyrir listamenn og skapandi fólk, en fjölmargir erlendir fyrirlesarar munu halda erindi á ráðstefnunni. „Það eru svo margir einyrkjar í listinni og nauðsynlegt fyrir þá að komast út úr stúdíóinu og hitta fólk í sama geira eða ólíkum geirum og fá nýjar hugmyndir um samvinnu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×