Fótbolti

Rúrik kom Gylfa til að hlæja | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson segir að andrúmsloftið í íslenska landsliðshópnum sé með besta móti en það mætir Lettlandi í undankeppni EM 2016 hér í Riga á föstudagskvöldið.

Lettland er erfitt heim að sækja þó svo að Ísland eigi að vera með sterkara lið á pappírnum góða. Undankeppnin byrjaði þó með besta móti fyrir Ísland en strákarnir unnu 3-0 sigur á Tyrklandi í síðasta mánuði.

„Mér líst ágætlega á andstæðinginn. Þetta verður allt öðruvísi en gegn Tyrklandi og þess vegna erfiðari leikur. Þeir verjast á mörgum mönnum og það verður undir okkur komið að brjóta þá niður og skora mark snemma.“

Ísland byrjaði líka vel í síðustu undankeppni og vann þá Noreg, 2-0, á heimavelli. En þá kom tap gegn Kýpur á útivelli nokkrum dögum síðar. „Það hefði getað kostað okkur sæti í umspilinu en sem betur fer fórum við á gott skrið og komumst í umspilið.“

Þegar þarna var komið gat Gylfi ekki lengur haldið hlátrinum niðri en á bak við myndavélina var Rúrik Gíslason sakleysið uppmálað þegar blaðamaður leit um öxl.

Gylfi sagði þó í lok viðtalsins að sér liði vel hjá Swansea, ekki síst þar sem hann fengi að spila alla leiki í sinni stöðu.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×