Lífið

Styðja konur í fæðingarferlinu

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Soffía Bæringsdóttir
Soffía Bæringsdóttir
„Doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar, fyrir, meðan og eftir fæðingu á forsendum hennar en tekur sér ekki klínískt hlutverk. Stuðningskona við barnshafandi konu á meðgöngu og eftir,“ segir Soffía Bæringsdóttir, sem ásamt Jesse Remer stendur fyrir doulu-námskeiði sem hefst 14. nóvember næstkomandi.

Soffía starfar sjálf sem doula og hefur gert undanfarin ár. Hún segist vera líklega sú eina sem er með þetta nánast að fullu starfi. Um 5-10 íslenskar konur taki að sér nokkrar fæðingar á ári en auk þess séu nokkrir nemar sem sinni doulu-störfum líka að sögn Soffíu.

Aðspurð hvað felist í doulu-hlutverkinu segir hún: „Viðvera, fræðsla, traust og öryggi. Við erum til staðar, hlustum, aðstoðum konuna við að velja hvernig fæðingu hún vill, erum með henni alla fæðinguna sama hvað hún er löng og hjálpum til. Við erum líka stundum makanum innan handar.“ Hún segir þetta þó snúast aðallega um að veita konunni öryggi á meðgöngunni og í fæðingu.

Soffía segir sífellt fleiri konur sækja í aðstoð doula. „Það er mjög algengt að konur hafi samband í kringum 20. til 25. viku en það er allur gangur á því. Það hefur verið haft samband við mig strax eftir að kona fékk jákvætt svar á óléttuprófi og líka tveimur tímum fyrir fæðingu. Það er allur gangur á þessu. Það eru alltaf fleiri að nýta sér þetta,“ segir hún.

Kynning á náminu verður í Lygnu, Síðumúla 10, fimmtudaginn 9. október klukkan 18. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×