Lífið

Þættirnir Ófærð forseldir til meginlandsins

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Sigurjón lofar drungalegum sakamálaþáttum.
Sigurjón lofar drungalegum sakamálaþáttum.
„Það er mjög góð stemning fyrir þessu,“ segir Sigurjón Kjartansson, einn handritshöfunda að nýju íslensku þáttaröðinni Ófærð eða Trapped, en þættirnir hafa nú þegar verið seldir til Frakklands, Þýskalands og Norðurlandanna.

Þættirnir, sem verða teknir upp í haust á íslensku og aðallega með íslenskum leikurum, verða talsettir í Þýskalandi og Frakklandi en sýndir með texta í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Leikarar sem hafa verið staðfestir eru meðal annars Ólafur Darri og Bjarne Henriksen úr Forbrydelsen.

Sigurjón segir að þetta verði drungalegir sakamálaþættir sem gerast á Seyðisfirði.

„Þegar ferja með 300 ferðalöngum frá Danmörku lendir í smábæjarhöfn brestur á stórhríð. Ferjan getur ekki snúið við fyrr en storminn lægir. Eini vegurinn inn í bæinn lokast. Illa limlest lík finnst í flæðarmálinu og ekki er hægt að bera kennsl á manninn, sem var greinilega myrtur nokkrum klukkustundum áður.

Lögreglustjórinn á svæðinu, Andri Ólafsson, mætir á svæðið og uppgötvar að morðingi er laus í bænum. Þegar fréttin berst út veldur hún miklu uppnámi þar sem bæði ferðalangarnir og íbúarnir uppgötva að þeir liggja allir undir grun á meðan morðinginn gengur laus," segir á vefsíðu dreifingaraðilans Dynamic TV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×