Innlent

Fordómar gegn geðfötluðum í barnaverndarmálum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Vanræksla mæðranna tveggja sem fjallað er um lýsti sér í að börnin mættu illa í skóla. Ekki var um annan vanda að ræða. 
fréttablaðið/vilhelm
Vanræksla mæðranna tveggja sem fjallað er um lýsti sér í að börnin mættu illa í skóla. Ekki var um annan vanda að ræða. fréttablaðið/vilhelm
Í síðasta helgarblaði Fréttablaðsins var rætt við konu sem ólst upp hjá þroskaskertri móður. Hún sagði seinfæra foreldra verða fyrir miklum fordómum vegna foreldrahæfni sinnar og að fyrsta úrræði félagslega kerfisins sé oft að taka börnin af foreldrum sínum og senda í fóstur.

Fyrir utan að fósturvistun kosti kerfið mun meira en viðeigandi stuðningur við fjölskylduna hafi afleiðingar fósturvistunar mikil áhrif á börnin, sem vilja mörg helst búa hjá fjölskyldu sinni.

Í kjölfar viðtalsins hafa borist margar ábendingar foreldra sem segjast hafa fengið sambærilegt viðmót og fordóma frá félagslega kerfinu. Mikill meirihluti þeirra eru foreldrar með geðröskun.

Nýlega voru tvö börn tekin af móður á Akureyri og send í fóstur. Móðirin er með geðröskun en flutti til Akureyrar til að búa nær geðlækni sínum og leitaði hún sjálf eftir stuðningi við umönnun barna sinna.

Móðirin og aðstandendur hennar segja að henni hafi aldrei verið veittur viðeigandi stuðningur. Ástæða fósturvistunar er að börnin hafi sótt skólann illa, en óregla er á svefni móður vegna veikindanna. Fósturvistun var ákveðin þrátt fyrir mat hlutlauss sálfræðings og geðlæknis um að ekki ætti að taka börnin frá móðurinni vegna góðs og náins sambands þeirra, auk þess vildu börnin alls ekki fara frá móður sinni.

Spyrja má hvort þessi móðir hefði fengið meiri stuðning og annað viðmót í kerfinu hefði hún verið með annan sjúkdóm en geðsjúkdóm. Foreldrar þurfa aðstoð vegna mismunandi vanda. Mörg dæmi eru um hreyfihamlað fólk sem fær mikinn stuðning við umönnun barna sinna, jafnvel allan sólarhringinn, án þess að deilt sé um foreldrahæfni þeirra.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að þrátt fyrir miklar framfarir í þessum efnum hjá Reykjavíkurborg, leynist lúmskir fordómar víða. Líka hjá fagmenntuðu fólki í geiranum. 

„Fordómar um að geðfatlað fólk sé ofbeldisfyllra og geti þar af leiðandi sett börn sín í hættu, eru enn mjög ríkjandi. Þegar upp kemur mál í fjölmiðlum er varðar geðfatlað fólk, er alltaf mikið gert úr geðfötluninni þótt ræturnar séu í öðrum þáttum eins og til dæmis vímuefnanotkun,“ segir Anna og bætir við að þetta liti viðhorf fólks til foreldrahæfni. „Fólk er hrætt um að foreldrar með geðrænan vanda beiti frekar ofbeldi eða vanræki börn sín sem þeir eru í raun ólíklegir til að gera.“

Anna bendir á að tæplega 40 prósent öryrkja á Íslandi séu það á grundvelli geðraskana, það séu 6.400 manns. „Þjónustan sem hópurinn fær samsvarar svo sannarlega ekki þessu hlutfalli.“

Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands.
Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræði, segir mörg dæmi um gott fjölskyldulíf þar sem foreldrar fá réttan stuðning. 

„Erfiðustu og sárustu reynsluna finnum við hjá þeim sem hafa misst börnin sín og hjá börnum sem hafa verið send í fóstur. Þannig verður til langtímavandamál hjá þessum einstaklingum sem kerfið þarf að fást við. Eðlilegra er að fjölskyldur fái viðeigandi stuðning, í samráði við foreldra, í trausti en ekki þannig að þeir óttist að börnin verði tekin af þeim ef þeir viðurkenna að þeir þurfi aðstoð.“ 

Mannréttindalög og íslenska stjórnarskráin kveða á um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli stöðu, svo sem fötlunar. Því er það í raun mismunun að fjarlægja börn frá foreldrum eingöngu á grundvelli þess að foreldrar eru fatlaðir. Aftur á móti er hvergi kveðið á um foreldrastuðning, eins og ekki sé gert ráð fyrir að fatlað fólk verði foreldrar.

„Maður hristir ekki af sér þunglyndi“

Margt er líkt með móðurinni sem nú hefur misst börn sín í fóstur og móður á Akureyri sem hefur átt við geðhvörf að stríða allt frá unglingsaldri. Hún á eitt barn.

„Ég fæ þunglyndisköst og á þá mjög erfitt með að vakna á morgnana. Ég bað því um aðstoð hjá barnaverndarnefnd," segir móðirin sem vill ekki tala undir nafni af ótta við frekari fordóma í bæjarfélaginu. „Mér var boðið að fá tilsjónarmanneskju til mín klukkan átta á morgnana, en þá á barnið mitt að vera mætt í skólann, svo það var lítil aðstoð í því. Mér var sagt að ekki væri til peningur og erfitt væri að fá fólk í vinnu, og því ekki hægt að fá manneskju til mín fyrr. Það var aftur á móti til tími og peningur til að stinga upp á tímabundnu fóstri fyrir barnið mitt."

Hún segir sér mest blöskra vinnubrögð og viðmót starfsfólks sem sé litað af miklum fordómum og skilningsleysi.

„Í fyrsta lagi viðurkennir félagsráðgjafi minn að hann hafi enga þekkingu á geðhvarfasýki. Í öðru lagi hef ég lesið í gegnum skýrslur mínar þar sem starfsmenn hafa skrifað setningar eins og: „Móðir á enn við geðrænan vanda að stríða," og: „Ekki hefur ræst úr þunglyndi móðurinnar." Þarna sést vanþekkingin. Þunglyndi er ekki eitthvað sem hverfur eða maður hristir af sér. Maður þarf að lifa með því og ég bað um aðstoð við nákvæmlega það."

Móðirin segist aldrei hafa áður fundið fyrir slíkum fordómum vegna sjúkdóms síns, hvorki á vinnumarkaði eða annars staðar. Það hafi byrjað þegar barnið byrjaði í skóla og samskipti hennar við barnaverndaryfirvöld einkennist nú af tortryggni og ótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×