Lífið

Tilnefnd en talar ekki

Sigríður María Egilsdóttir vekur hvarvetna eftirtekt.
Sigríður María Egilsdóttir vekur hvarvetna eftirtekt.
„Ég gerði mitt besta til að tala íslensku með sænskum hreim en það hefði aldrei orðið trúverðugt,“ segir Sigríður María Egilsdóttir leikkona sem tilnefnd er til Edduverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki.

Í myndinni Hross í oss leikur Sigríður sænska stúlku sem starfar sem hestatemjari á íslenskum sveitabæ og var sænsk leikkona fengin til að tala fyrir Sigríði í myndinni.

Benni [Benedikt Erlingsson leikstjóri, innsk. blm.] vildi hafa þetta sem flottast og raunverulegast. Ég tala auðvitað mína dönsku sem ég lærði í grunnskóla en átti erfiðara með sænskuna. Ætli ég hafi ekki hljómað meira eins og Íslendingur að reyna að tala sænsku en Svíi að tala íslensku. Svo við tókum þessa ákvörðun, að fá sænska leikkonu til að tala fyrir mig og mér fannst það bara koma mjög vel út.“

Fréttablaðið hafði samband við Benedikt Erlingsson sem var staddur í Gautaborg að kynna Hross í oss sem hefur nú innreið sína á sænskan markað. Hann upplýsti að sænska leikkonan væri læknir að nafni Lovísa Permann sem væri leikkona í hjáverkum og við nám í leiklistarskóla.

Það má því kannski segja að Sigríður og Lovísa deili þeirri upphefð sem felst í Eddutilnefningunni þar sem rödd og raddbeiting er einn stærsti hlutinn af list leikarans.

„Já, næsta skref verður að fá tilnefningu fyrir hlutverk þar sem ég notast við eigin rödd,“ segir Sigríður og hlær. Hún segir þessa tilnefningu mikla upphefð og til þess fallna að auka áhuga hennar á leiklist.

Sigríður er reyndar með leiklistina í blóðinu – faðir hennar er Egill Heiðar Anton Pálsson leikstjóri, sem frumsýndi Gullna hliðið á Akureyri á dögunum, og afi hennar Hallmar Sigurðsson leikstjóri sem var Borgarleikhússtjóri á sínum tíma.

„Nú er ég samt bara að vinna og safna fyrir Asíureisu og svo stefni ég á að hefja nám í lögfræði,“ segir leikkonan unga sem þarf ekki einu sinni að tala til að heilla bíógesti víða um heim

fréttablaðið/daníel





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.