Innlent

Svissneska parið dæmt í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Parið var dæmt fyrir nokkra þjófnaði á Vestfjörðum.
Parið var dæmt fyrir nokkra þjófnaði á Vestfjörðum.
Svissneska parið sem braust inn í Kaupfélagið í Norðurfirði í liðinni viku, og var handtekið í gær, var í dag dæmt í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir nokkra þjófnaði í umdæminu. Fólkið er nú laust úr haldi lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum var ákæra á hendur parinu gefin út í dag og fékk málið sérstaka flýtimeðferð þar sem um ferðamenn er að ræða.

Sjá einnig: Parið hélt Árneshreppi í gíslingu

Parið var dæmt fyrir að hafa farið í tvígang í óleyfi inn í bárujárnsklæddan reykkofa við tjaldstæði og stolið þaðan reyktum rauðmaga sem þau svo borðuðu. Þá voru þau einnig dæmd fyrir að brjótast inn í verslun og stela þaðan 25.000 krónum í reiðufé.

Þaðan stálu þau jafnframt vörum fyrir um 100 þúsund krónur, meðal annars matvöru, hannyrðum, sokkum og dömubindum. Þau játuðu brot sín fyrir dómi en ekki liggur fyrir hvort þau eigi sakaferil að baki erlendis.

Áður hafði fólkið játað að hafa brotist inn í Kaupfélagið í Norðurfirði og fóru þau þangað í fylgd lögreglu og greiddu fyrir þær vörur sem þau tóku þar.

Erfitt getur reynst að vísa fólkinu úr landi þar sem þau eru svissneskir ríkisborgarar. Dómurinn yfir þeim og gögn tengd honum hafa þó verið send til Útlendingastofnunar sem mun þá leggja mat á hvort þeim verði vísað frá landinu eður ei.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var talað um Norðfjörð. Hið rétta er að um Norðurfjörð var að ræða. Hefur þetta verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×