Viðskipti innlent

Jón Steinar aftur í lögmennsku

Atli Ísleifsson og Jón Hákon Halldórsson skrifa
Lögmennirnir og feðgarnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Konráð Jónsson.
Lögmennirnir og feðgarnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Konráð Jónsson. Vísir/Anton/Facebook
Feðgarnir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og Konráð Jónsson héraðsdómslögmaður ætla að hefja störf á Veritas lögmannsstofu þann 1. mars.

Konráð hefur fimm ára reynslu af lögmannsstörfum og hefur starfað hjá lögmannsstofunni Opus undanfarin ár. Pabbi hans, Jón Steinar, er fyrrverandi hæstaréttardómari. „Mig hefur mikið langað til að vinna með pabba mínum á lögmannsstofu og núna er rétti tímapunkturinn bæði hjá honum og mér. Þannig að við ákváðum að stökkva á þetta tækifæri,“ segir Konráð.

Jón Steinar segist í samtali við Vísi hafa saknað lögmennskunnar. „Líkt og ég nefni í bók minni sem kom út fyrir síðustu jól þá segi ég að lögmannsstarfið sé það starf sem ég hef fundist skemmtilegast á mínum ferli og höfðað mest til mín. Daprasti tíminn í starfi hjá mér var sá tími sem ég átti í Hæstarétti, varðandi starfsumhverfi, þann anda sem þar var ríkjandi og svo framvegis.“

Jón Steinar segist mikið hlakka til að hefja störf. Hann segist þó ekki vita hvort það eigi eftir að liggja fyrir honum að flytja mál í dómssal. „Það kemur í ljós hvernig það þróast. Það eru mörg önnur störf í lögmennsku en að flytja mál í Hæstarétti. En ég hugsa mér bara gott til þess arna.“

Þið verðið þá tveir með ykkar hluta þarna á skrifstofunni?

„Já, en ég hef áður nefnt að ég á tvö önnur börn, yngri en Konráð, sem eru orðin lögfræðingar. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Jón Steinar léttur í bragði.

Jón Steinar segist hafa orðið 67 ára síðastliðið haust og eigi því langa lífdaga eftir. „Ég er svo heppinn að vera við góða heilsu og þess vegna treysti ég mér til að fara aftur í svona starf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×