Lífið

Uppboð á skosku slátri að snæðingi loknum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Pétur er sjálfur mjög hrifinn af haggis.
Pétur er sjálfur mjög hrifinn af haggis. Vísir/PéturBerg
Edinborgarfélagið stendur í janúar ár hvert fyrir sérstökum kvöldverði, Burns Supper, í nafni skáldsins Robert Burns.

„Burns er þekktasta skáld þeirra Skota. Við erum í raun að fagna afmæli hans, 25. janúar,“ segir Pétur Berg Matthíasson, meðlimur í stjórn Edinborgarfélagsins.

Burns Supper er haldinn víðs vegar um heim og er haldinn hérlendis í 38. skipti þann 24. janúar næstkomandi.

„Við erum að bjóða upp á mat sem er alla jafna ekki fáanlegur á íslandi. Eins og til dæmis haggis,“ segir Pétur.

Edinborgarfélagið þarf því að flytja haggis inn þar sem það er mikilvægur hluti hátíðarhaldanna. „Burns samdi ljóð til heiðurs haggisnum sem skýrir þessa sterku tengingu á milli haggis og Burns. Þetta er vanalega gert þannig að einn úr hópnum fer með ljóðið þar sem hann stendur frammi fyrir haggisnum og stingur svo í hann með listrænum tilburðum.“ En að athöfn lokinni hefst máltíðin.

„Klárist ekki allur maturinn þá erum við með uppboð á haggis. Það er mjög skemmtilegt og smá stemning í kringum það alltaf. Það er auðvitað ekkert auðvelt að nálgast þetta,“ segir Pétur sem sjálfur er hrifinn af haggis.

„Ég er hrifnari af þessu heldur en til að mynda slátrinu. Gott krydd í þessu og svona.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×