Meðalbið fólks eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu er 25,6 mánuðir. Sveitarfélögin í landinu áttu í lok síðasta árs tæplega 5.000 leiguíbúðir, en sjö þeirra áforma að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð, samtals um 131 íbúð.
Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Varasjóðs húsnæðismála en frá árinu 2004 hefur sjóðurinn annast árlega könnun á stöðu félagslegs leiguhúsnæðis hjá sveitarfélögum landsins og taka niðurstöður þessarar könnunar til ársins 2014. Lengst meðalbið eftir leiguíbúð árið 2014 var 30 mánuðir hjá Kópavogsbæ og Akraneskaupstað, 29 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og 24 mánuðir hjá Hveragerðisbæ.
Öll stærri sveitarfélög á suðvesturhorni landsins, frá Árborg til Borgarbyggðar, greiða sérstakar húsaleigubætur og stór hluti fjölmennari sveitarfélaga á landsbyggðinni einnig. Sveitarfélög sem greiða sérstakar húsaleigubætur áttu alls 4.229 íbúðir, eða 85,7% allra leiguíbúða íslenskra sveitarfélaga árið 2014.
Innlent