Skoðun

Við viljum samráð

Hjálmar Sveinsson skrifar
Sameinum sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er löngu úrelt og óhagkvæmt fyrirkomulag og fjárhagslegur klafi á íbúum,“ skrifaði borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, á samfélagsmiðlinum Facebook fyrir tæpum tveimur árum. Hann bætti við: „Með sameiningu getum við aukið hagsæld, bætt þjónustu og dregið úr kostnaði. Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.“

Borgarstjórinn hafði góðar og gildar ástæður fyrir þessari skoðun sinni. Blind samkeppni sveitarfélaganna á stór-höfuðborgarsvæðinu, sem nær frá Akranesi að Reykjanesi og austur á Selfoss, leiddi til mikillar offjárfestingar í dreifðri og óhagkvæmri byggð, tómu húsnæði og auðum byggingarlóðum. Fyrsti áratugur 21. aldarinnar mun líklega fara í sögubækurnar sem áratugur takmarkalausrar þenslu, ó(sam)ráðs og hruns.

Ástæðunnar fyrir öllu því klúðri er ekki bara að leita í ódýru lánsfé, heldur líka í skipulagsáætlunum sveitarfélaga sem gáfu sér stökkbreytingu í mannfjölda á sínu svæði. Um það er fjallað í merkri skýrslu „Veðjað á vöxt“ sem Háskólinn í Reykjavík gaf út fyrir nokkrum misserum.

Ég reikna með að borgarstjóranum hafi blöskrað öll sú mikla sóun á fjármunum, verðmætu landi, auðlindum, orku og tíma sem veðjað-á-vöxt-stefnan hafði í för með sér.

Hvað er til ráða. Undanfarin ár hafa fulltrúar sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu unnið að gerð nýs svæðisskipulags sem á að gilda frá 2015 til 2040. Það byggir á skuldbindandi samkomulagi sveitarfélaganna frá 24. ágúst 2012 um að stefna að hagkvæmri og sjálfbærri borgarþróun. Í fylgisskjali samkomulagsins er hnykkt sérstaklega á því. Þar segir að markmið um sjálfbæra þróun verði „ráðandi í skipulagi svæðisins með blandaðri landnotkun, þéttingu byggðar og vistvænum samgöngum“.

Í svæðisskipulaginu er gengið út frá því að höfuðborgarsvæðið sé eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður, með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir, útmörk, landslag og náttúru.

Það sem meira er: Svæðisskipulagið er virk skipulagsáætlun sem verður fylgt eftir allan tímann sem það verður í gildi. Í samkomulagi sveitarfélaganna segir að sveitarfélögin skuldbindi sig til að virða skipulagið og hafa það að leiðarljósi við gerð aðalskipulags og endurskoðunar þess.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×