Innlent

Efni í lokaritgerð í HÍ ekki talið stolið

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ekki er komin niðurstaða í mál nýútskrifaða viðskiptafræðingsins frá í vor. Þrjú viðtöl eru talin fölsuð í ritgerð hans.
Ekki er komin niðurstaða í mál nýútskrifaða viðskiptafræðingsins frá í vor. Þrjú viðtöl eru talin fölsuð í ritgerð hans. fréttablaðið/ernir
„Það hefur verið ákveðið að það sé ekki tilefni til aðgerða,“ segir Runólfur Smári Steinþórsson, deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, um niðurstöðu deildarinnar um meintan ritstuld í lokaritgerð útskrifaðs viðskiptafræðings frá árinu 2013.

Málið er annað af tveimur sem komu upp á skömmum tíma hjá deildinni.

Deildin fékk ábendingu frá aðila sem taldi að höfundur umræddrar ritgerðar hefði stolið setningum úr lokaritgerð sinni. Báðar fjalla um markaðssetningu íslenska hestsins erlendis.

„Meintur ritstuldur var ekki staðfestur með ótvíræðum hætti,“ segir Runólfur og bætir við að óháður aðili hafi verið fenginn til að skoða málið. „Hérna innanhúss er málinu lokið og ég ákvað að gera ekki meira.“

Enn er ekki komin niðurstaða í mál viðskiptafræðinemans sem útskrifaðist frá skólanum í febrúar. Í þeirri ritgerð virðast heilu kaflarnir stolnir úr öðrum ritgerðum og ummæli höfð eftir viðmælendum sem aldrei var rætt við.

„Það má vænta niðurstöðu úr því máli á næstu dögum,“ segir Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×