Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum fyrir Norrköping í 2-1 sigri liðsins á Atvidaberg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Emir Kujovic klikkaði víti fyrir Norrköping í upphafi leiks, en Arnór Ingvi kom heimamönnum yfir eftir 55. mínútna leik. Victor Skoeld jafnaði metin skömmu síðar.
Christoffer Nyman tryggði svo Norrköping sigurinn stundarfjórðungi fyrir leikslok. Lokatölur 2-1 sigur Norrköping sem er með þrettán stig eftir sjö leiki. Arnór spilaði allan leikinn.
Jón Guðni Fjóluson og Rúnar Már Sigurjónsson spiluðu báðir allan leikinn fyrir GIF Sundsvall sem tapaði 1-0 gegn FH-bönunum í Elfsborg á heimavelli.
Viktor Prodell skoraði eina markið á 78. mínútu. Sundsvall er í tíunda sæti með sjö stig, en Elfsborg er á toppnum með 16 stig.
