Erlent

Fara ekki til Afganistans af öryggisástæðum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Frétt ehf / Rósa Jóhannsdóttir
„Það er í það minnsta ákveðið að sveitin fer ekki til Afganistans, þar er öryggisástandið þannig að það þykir ekki forsvaranlegt að senda hana þangað,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Talið er að minnst 200 manns hafi farist í jarðskjálfta sem átti upptök sín í Afganistan í gær og hafði víðtæk áhrif í Pakistan og fannst á Indlandi. Um 150 manns týndu lífi í Pakistan og meira en fimmtíu í Afganistan. Skjálftinn var 7,5 gráður á richter.

Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem lýst var yfir ákvörðun hennar um að senda íslensku alþjóðabjörgunarsveitina á vettvang verði þess óskað. „Sveitin er á því sem kallast „standby“. Þá er verið að yfirfara búnað og gera sig tilbúna,“ segir Ólöf.

„Nú bíðum við eftir því hvort það kemur beiðni um aðstoð frá skaðalöndunum Afganistan eða Pakistan. En það eru þó ýmis mál sem þarf að skoða. Það er öryggisástandið og annað slíkt,“ segir Ólöf.

Ekki þykir ekki ráðlegt að senda sveitina til Afganistans. „Við vitum ekki alveg með Pakistan. Við erum í rauninni að bíða eftir upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum varðandi öryggið.“

Björgunarstarf þykir erfitt á skjálftasvæðinu þar sem það er mjög fjalllent. Yfirvöld í Afganistan telja að tala látinna muni hækka þegar björgunaraðgerðir ná til fjallaþorpa en talið er að þau hafi orðið verst úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×