Bíó og sjónvarp

Færri komust að en vildu á frumsýningu Þrasta í Toronto

Birgir Olgeirsson skrifar
Leikstjórinn Rúnar Rúnarsson ásamt Atla Óskari Fjalarssyni og Rakel Björk Björnsdóttur sem eru aðalleikarar Þrasta, ásamt Ingvari E Sigurðssyni
Leikstjórinn Rúnar Rúnarsson ásamt Atla Óskari Fjalarssyni og Rakel Björk Björnsdóttur sem eru aðalleikarar Þrasta, ásamt Ingvari E Sigurðssyni
Færri komust að en vildu þegar kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, var frumsýnd í gærkvöldi á kvikmyndahátíðinni Toronto International Film Festival í Kanada. Er uppselt á fleiri sýningar myndarinnar á hátíðinni.

Bandaríski fjölmiðillinn The Hollywood Reporter hefur birt gagnrýni um myndina. Gagnrýnandinn telur Þresti vera hina dæmigerðu þroskasögu þar sem ekki mikið kemur á óvart framan af. Viðbrögðin verða því enn meiri þegar söguþráður myndarinnar tekur óvænta stefnu í tvígang.



Gunnar Óskarsson, Kjartan Sveinsson, Rúnar Rúnarsson, Atli Óskar Fjalarsson, Mikkel Jersin og Rakel Björk Björnssdóttir
Gagnrýnandinn telur Rúnar Rúnarsson halda velli frá fyrstu kvikmynd sinni, Eldfjall, með vandaða nálgun á hversdagslegu umhverfi. Myndin var tekin upp á Flateyri og er sjávarþorpið og fjallgarðurinn í kring sögð fullkomna upplifun áhorfenda og spila stórt hlutverk. Einnig kemur gagnrýnandinn inn á sérsamda kvikmyndatónlist Kjartans Sveinssonar, fyrrverandi hljómborðsleikara Sigur Rósar, sem hann segir einstaklega fallega.

Þrestir er dramatísk mynd sem fjallar um 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að búa með föður sínum sem hann hefur ekki séð í ein sex ár.

Í aðalhlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurdsson, Rakel Björk Björnsdóttir , Kristbjörg Kjeld og Rade Serbedzija.

Þrestir eru framleiddir af Nimbus Ísland og Nimbus film í samvinnu við Pegasus og MPfilms. Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, danska kvikmyndasjóðnum, norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum, króatíska kvikmyndasjóðnum, Iðnaðarráðuneytinu og ísamvinnu við Senu, RÚV, TV2 í Danmörku og SF í Danmörku.

Þrestir koma í almennar sýningar 16. október á vegum Senu.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×