Innlent

Tuttugu ökutæki eiganda Strawberries áfram kyrrsett

Bjarki Ármannsson skrifar
Rannsóknin á starfsemi Strawberries leiddi ekki til ákæru á hendur Viðari fyrir vændi eða fyrir að hafa haft milligöngu um vændi.
Rannsóknin á starfsemi Strawberries leiddi ekki til ákæru á hendur Viðari fyrir vændi eða fyrir að hafa haft milligöngu um vændi. Vísir/Stefán
Hæstiréttur hefur aftur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu Viðars Más Friðfinnssonar, eiganda kampavínsklúbssins Strawberries, um að kyrrsetningar á eignum hans séu felldar úr gildi.

Um er að ræða fjórar kyrrsetningaraðgerðir sýslumannsins í Reykjavík frá 8. nóvember 2013 og 28. maí í fyrra, sem taka meðal annars til tuttugu ökutækja að verðmæti um fimmtíu milljóna króna. Viðar Már reyndi að fá kyrrsetningarnar ógildar fyrr á árinu og hafnaði Hæstiréttur kröfunni í júní síðastliðnum.

Viðar Már var haustið 2013 handtekinn og færður í varðhald ásamt fimm öðrum í tengslum við rannsókn lögreglu á starfsemi Strawberries. Lögregla hóf rannsóknina í kjölfar ítrekaðra ábendinga um að vændisstarfsemi færi fram á staðnum en rannsóknin leiddi ekki til ákæru á hendur Viðari fyrir vændi eða fyrir að hafa haft milligöngu um vændi.

Viðar Már byggði kröfu sína um niðurfellingu kyrrsetninga á því að þau mál sem hafi verið grundvöllur kyrrsettninganna hafi nú verið felld niður. Annað mál er þó enn til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en það snýr að meintum skattalagabrotum Viðars og ætluðum peningaþvætti. Lögregla segir því máli ekki lokið heldur til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra.

Lögregla vísaði meðal annars til þess fyrir dómi að ávinningur af ætlaðri brotastarfsemi Viðars kunni að hlaupa á hálfum milljarði króna og verðmæti hinna kyrrsettu muna sé mun minna. Jafnframt telji lögregla sönnunarstöðu vegna ætlaðra brota Viðars Más mun sterka og því þyki ljóst að þeir fjármunir sem kyrrsettir hafa verið við rannsókn málsins verði gerðir upptækir með dómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×