Erlent

„Atburðir dagsins munu hafa alvarlegar afleiðingar“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladimir Pútín í gær.
Vladimir Pútín í gær. vísir/ap

Tyrkir stungu Rússland í bakið þegar þeir skutu niður rússnesku herþotuna í morgun. Með því skipuðu Tyrkir sér í sveit með hryðjuverkjamönnum að mati Vladimirs Pútín Rússlandsforseta.  Þetta kom fram í máli hans við fjölmiðla nú í hádeginu en hann er nú staddur í Sochi ásamt Abdullah, konungi Jórdaníu. 

Þar útskýrði Pútín meðal annars að herþotan, sem var af gerðinni Su-24, hafi verið rúman kílómetra frá tyrknesku landamærunum þegar hún var skotin niður yfir Sýrlandi.

Sjá einnig: Rússar líta árásina mjög alvarlegum augum 



Vélin hafi þannig ekki verið nein ógn við þjóðaröryggi Tyrkja að sögn Pútíns sem bætti við að skotmörk hennar hafi verið hryðjuverkahópar í Latakia-héraði í norðurhluta Sýrlands.

Þessa mynd sendu tyrknesk yfirvöld frá sér til að sýna fram á að rússneska vélin hafi í raun flogið inn í lofthelgi landsins. Talið er að hún hafi gert það tvisvar. Áætlað er að það hafi verið í um 10 sekúndur.mynd/wikileaks

NATO tók upp hanskann fyrir Íslamska ríkið

Þá ýjaði Pútín að því að hryðjuverkahópar á svæðinu fjármögnuðu sig með því að stjórna flutningi jarðefnaeldsneytisins um svæðið. Hann sagði einnig að þessir hópar nytu verndar tyrkneska stjórnarhersins – „sem gæti útskýrt hvers vegna hryðujuverkahópar víla ekki lengur fyrir sér að fremja ódæði víðsvegar um heiminn,“ sagði Pútín í dag. 

Hann undirstrikaði að grand rússnesku vélarinnar myndi hafa „alvarlegar afleiðingar“ fyrir samband Rússlands og Tyrklands. 

„Það að Tyrkir hafi ekki haft samband við Rússland í kjölfar árásarinnar heldur þrýst á NATO-fund er mikið áhyggjuefni,“ sagði Pútín. „Með því vilja Tyrkir að NATO beiti sér fyrir hagsmunum Íslamska ríkisins,“ bætti hann við. 

Sjá einnig: NATO boðar til neyðarfundar vegna rússnesku herþotunnar

Rússlandsforseti sagði að þrátt fyrir að hann gerði sér grein fyrir hagsmunum annarra ríkja á svæðinu myndu Rússar svara fyrir ódæðisverk Tyrkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×