Erlent

Þrír grímuklæddir menn skutu á mótmælendur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mótmælendur hafa safnast saman allt frá því að Jamar Clark var skotinn þann 15. nóvember síðastlinn.
Mótmælendur hafa safnast saman allt frá því að Jamar Clark var skotinn þann 15. nóvember síðastlinn. skjáskot

Fimm særðust í skotárás fyrir utan lögreglustöð í Minneapolis í nótt.

Þar hafði hópur fólks safnast saman til að mótmæla morðinu á blökkumanninum Jamar Clark sem skotinn var til bana af lögreglumönnum þann 15. nóvember.

Að sögn lögreglunnar í Minneapolis var tilkynnt um byssuhvelli skammt norðan við lögreglustöðina í nótt. Fórnarlömbin fimm voru flutt á sjúkrahús í grenndinni en þau eru ekki talin í lífshættu.

Einn skipuleggjandi mótmælanna sagði í samtali við New York Times að skothríðin hafi hafist þegar ákveðið var að vísa þremur grímuklæddum mönnum af vettvangi mótmælanna.

Þeir höfðu að sögn verið að haga sér undarlega. Þegar þeir voru komnir úr augsýn drógu þeir upp byssur og hófu skothríð áður en þeir hlupu á brott. Þrjú fórnarlambanna voru flutt með einkabílum á nærliggjandi sjúkrahús en tvö með sjúkrabíl.

Eitt þeirra fékk skot í magann og var drifið undir skurðarhnífinn. Lögreglan í Minneapolis sagði á Twitter-síðu sinni að hún leitaði nú þriggja hvítra karlmanna í tenglsum við málið. Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er vegna skotárásarinnar í nótt.

Mótmælendur hafa nú komið saman fyrir utan lögreglustöðina í rúma viku vegna morðsins á Jamar Clark. Fjölmargir hafa tjaldað fyrir utan stöðina og tugir mótmælenda hafa verið handteknir síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×