Talsmenn stjórnarandstöðunnar eru uggandi yfir þeirri stöðu sem uppi er eftir að hjúkrunarfræðingar höfnuðu samningi sínum við ríkið.
„Eins og við vöruðum við þá gat lagasetning á verkföll aldrei leyst þetta mál og nú sitjum við eftir með vandann óleystan. Ríkisstjórn sem taldi það eðlilegt að bæta einum hópi úr samfélaginu fyrir gengisfall krónunnar verður að svara öðrum heilbrigðisstéttum því af hverju þær eiga ekki líka að fá bætur fyrir krónuna, og svo sem öðrum launamönnum líka,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tekur í sama streng. „Það heyrir upp á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að verja okkar opinberu heilbrigðisþjónustu. Þó að lög á verkfallsaðgerðir hafi staðist fyrir rétti er ég þeirrar skoðunar að þetta hafi eigi að síður verið óskynsamleg og röng lagasetning fyrir stöðuna á vinnumarkaði í heild, en ekki síst fyrir stöðu velferðarkerfisins. Ég vona að sú verði ekki raunin en það eru þær áhyggjur sem ég held að flestir hafi haft þegar þessi lagasetning var rædd, að hún kynni að hafa mjög alvarlegar langtímaafleiðingar.“
Innlent