Lífið

Fólkið á Sónar: Njóta drykkjanna

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Félagar í góðum gír.
Félagar í góðum gír. Vísir/AndriMarinó
Jorge Martinez og Raul Sevilla koma frá Mexíkó og Spáni en eru búsettir í London þar sem þeir starfa fyrir tónlistarsíðuna Música Crónica. Þeir eru staddir hérlendis í vinnuferð og munu fjalla um Sónar, en stefnan er ekki síður sett á að skemmta sér.

Stoppið verður stutt hjá þeim félögunum en þeir ætla að nýta tímann vel áður en þeir halda aftur til London á sunnudag. Þetta er í fyrsta skipti sem þeir fara á Sónar og einnig í fyrsta sinn sem þeir koma til Íslands.

„Við komum bara fyrir Sónar. Við erum spenntir fyrir því að sjá Paul Kalkbrenner í kvöld, það er líka mikið af „local“ böndum sem við viljum sjá en nöfnin eru flókin svo við munum þau ekki,“ segja þeir félagarnir hressir.

Þeir eru hrifnir af íslenskri náttúru og sérstaklega fannst Jorge gaman að sjá allan snjóinn þegar þeir lentu á Keflavíkurflugvelli í gær.

Raul þykir Harpan svipa til Forum í Barcelona. „Þetta „venue“ er ótrúlegt. Mér finnst það frekar líkt Forum í Barcelona, sérstaklega að utan með öllum ljósunum, það er ótrúlegt,“ segir Raul glaður í bragði.

Þeir félagarnir setja stefnuna á að njóta eins mikið og þeir geta á meðan á þessari stuttu dvöl stendur. „Við ætlum að njóta snjósins og drykkjanna,“ segja þeir hressir að lokum áður en þeir  flýta sér á tónleika.


Tengdar fréttir

Sónar playlisti Vísis

Sónar hefst í kvöld. Hér eru nokkrir sem við mælum með að þú lítir á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×