Innlent

Segir þá deyja sem rjúfi lögmálin við Guð

Sveinn Arnarsson skrifar
Snorri Óskarsson í Betel ásamt lögmanni sínum, Einari Gauti Steingrímssyni, í dómssal í morgun.
Snorri Óskarsson í Betel ásamt lögmanni sínum, Einari Gauti Steingrímssyni, í dómssal í morgun. Vísir/Auðunn Níelsson
Vitnaleiðslur hófust í morgun í Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli Akureyrarkaupstaðar gegn Snorra Óskarssyni, kenndum við Betel. Upphaf málsins er á þá leið að Snorra var vikið úr störfum sem grunnskólakennari við Brekkuskóla árið 2012 vegna ummæla um samkynhneigð í persónulegu bloggi hans.

Innanríkisráðuneytið felldi þann úrskurð árið 2014 að uppsögn Snorra hafi brotið í bága við lög og að Akureyrarkaupstaður hafi ekki sagt upp starfsmanni sínum með lögmætum hætti. Akureyrarkaupstaður sætti sig ekki við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins og skaut úrskurði ráðuneytisins  til dómstóla.

Upphaf málsins má rekja til skrifa Snorra á bloggsíðu sína frá því í septembermánuði árið 2010. Efni bloggsins var samkynhneigð og hún sögð vera synd og syndina leiða til dauða. Snorri, sem þá var grunnskólakennari og mótunaraðili barna í Brekkuskóla á Akureyri, var þarna talinn brjóta gegn grunnskólalögum, að mati Akureyrarkaupstaðar. Þá fór af stað langt áminningarferli og var Snorra sagt upp nokkrum árum seinna.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.Vísir/Vilhelm
Þóttu skrifin ekki vera innan grunnskólalaga

Fyrir hádegi báru þrír einstaklingar vitni fyrir dómnum; Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Snorri Óskarsson og Gunnar Gíslason, þáverandi fræðslustjóri á Akureyri.

Eiríkur Björn Björgvinsson fór yfir það hvers vegna Snorra hafi verið vikið úr starfi sem grunnskólakennari á Akureyri. Ástæður þess voru störf Snorra sem rakin höfðu verið í áminningarferli sem hefði endað með uppsögn, sem og að skrif hans hefðu ekki þótt rúmast innan grunnskólalaga. Eiríkur benti einnig á að kjörnir fulltrúar hefðu ekki komið beint að málinu.

Snorri Óskarsson sagði í sínu máli Akureyrarbæ hafa misskilið téða bloggfærslu sína frá því árið 2010 þegar hann sagði samkynhneigð vera synd og laun syndarinnar væru dauði. Þetta væru orð Guðs úr Biblíunni. Þarna væri hann ekki að tala um einstaklinga, heldur efnið sjálft.

„Ég er að ræða um samkynhneigð, en ekki samkynhneigða,” sagði Snorri við réttarhöldin.

Einnig sagði hann bæjaryfirvöld hafa látið undan þrýstingi foreldra sem höfðu sent harðorða tölvupósta til skólastjórnenda þess efnis að þau vildu ekki að maður með þessar skoðanir kenndi börnum þeirra.

„Þetta er ekki hatur”

Meginstefið í réttarhöldunum í morgun var að reyna að skilja orð Snorra í bloggfærslum hans og hvernig það tengdist starfi hans í Brekkuskóla á Akureyri. Mikið púður fór í að reyna að greina nákvæmlega hvert mögulegt inntak Snorra var í raun.

Snorri benti á að samkynhneigð væri synd og evangelískir prestar hér á landi væru ekki að andmæla samkynhneigðum vegna haturs, heldur trúargilda.

„Þegar Adam syndgaði þá kom dauðinn,” sagði Snorri.

„Allir hér inni eru syndgarar. Við öll hér inni erum syndgarar og fáum ekki björgun nema í Jesú Kristi.”

Úr Brekkuskóla.Mynd/Arkitektar.is
Hjónabandið aðeins fyrir karl og konu

Snorri sagði í vitnaleiðslum víðtæka baráttu eða glímu milli trúar evangelískra og svokallaðra mannréttinda samkynhneigðra.

„Hjónaband er samband karls og konu og kemur sterkt fram í Jesú Kristi. Þetta er bæði trúarlegur sem og siðferðislegur skilningur minn. Hans predikun er mín predikun. Við höfum fyrirheit um það að Guð muni blessa samband karls og konu og ef við gerum þetta samkvæmt hans ráði er það okkur til blessunar.”

Áfram hélt Snorri að ræða hjónabandið og sagði í raun kynhneigð skipta engu máli.

„Hjónabandið er bara fyrir karl og konu, ekki samkynhneigða, ekki tvo karla og tvær konur. Ég var ekkert að ræða um samkynhneigð, heldur hjónabandið. Kynhneigð skiptir engu máli í þeim efnum,” sagði Snorri.  

Málamyndahjónabönd einnig synd

Snorra var tíðrætt um hjónabandið og sagði málamyndahjónabönd til þess að aðilar öðlist landvistarleyfi einnig mjög varhugaverð. „Hjónaband er miklu mikilvægari stofnun en að búa til einhverjar tengingar sem er ekkert að marka.

Í bloggi mínu hefði ég alveg eins getað talað um sýndarhjónabönd þar sem fólk giftist til að fá landvistarleyfi. Þetta er of heilög stofnun til að leika með hana og er fólki til glötunar.

Þeir deyja sem rjúfa lögmálin við Guð

Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bæjarlögmaður Akureyrarbæjar, spurði Snorra að því hvort hann sé vel að sér í þroska ungra barna. Snorri játaði því. Sem kennari hafi hann þekkingu á þroska þeirra. Því næst spurði lögmaður hvort hætta væri ekki á því að börn tækju ekki texta á borð við að syndinni fylgi dauði ekki bókstaflega, ef hans skilningur hefði ekki verið bókstaflegur. Snorri játaði því að börn myndu líkleg skilja þetta bókstaflega og misskilja textann líkt og Akureyrarbær hafi gert. 

„Þetta eru ekki mín orð, heldur Biblíunnar. Laun syndarinnar er dauði og dauðinn kemur inn vegna syndarinnar. Ef við gerum ekki klárt frammi fyrir Guði almáttugum þá deyjum við. En líkamlegur dauði kemur vegna þess að ákveðin lögmál eru rofin við Guð.”

Frá Akureyri.Vísir/Pjetur
Samkynhneigð lærð hegðun

Snorri telur áróður mikinn um samkynhneigð og að samkynhneigð sé á einhvern hátt lærð hegðun.

„Börnum er kennt og áróður er mikill um samkynhneigð. Menn hafa fengið frjálsan aðgang að börnum þar sem þessi lífsmáti er kynntur sem eðlilegur lífsmáti og það er bara áróður. Ég hef verið  á ýmsum námskeiðum og okkur var einu sinni færð bók sem var norsk, þýdd á íslensku og hét Frumþættir siðfræðinnar. Þar kom fram setning sem var mikið rædd á kennaranámskeiðinu sem sagði frá því að það vissi enginn hvaðan samkynhneigð kæmi en víst væri að hún smitaðist eftir umræðuna. Því meiri sem umræðan er, því meiri væri samkynhneigðin. Þetta er smitandi gagnvart umræðunni og er talað inn í börn og unglinga. ”

Börnin vildu ræða samkynhneigð í tímum

Inga Þöll spurði Snorra út í það hvort hann hafi rætt skoðanir sínar við börn í kennslustofum og hvort samkynhneigð hefði komið upp í umræðunni. Snorri minntist þess ekki en sagði að börnin hefðu viljað ræða samkynhneigð við hann.

„Ég gat komið inn í stofu og þá vildu þau spyrja mig út í þessi atriði sem og önnur af því að við ráðum ekki hvaða málefni eru iðandi í það og það skiptið hjá börnum. Ég hins vegar eyddi þessum samtölum og svaraði því til að þetta væri ekki efni kennslunnar og hélt áfram að kenna,” sagði Snorri.

Vitnaleiðslum verður fram haldið eftir hádegi í dag. Dómari í málinu er Þorsteinn Davíðsson, héraðsdómari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×