Innlent

Um 120 þúsund manns í miðbænum þegar dagskránni lauk með flugeldasýningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá flugeldasýningunni á menningarnótt í fyrra.
Frá flugeldasýningunni á menningarnótt í fyrra. vísir/ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áætlar að um 120 þúsund manns hafi verið á miðborgarsvæðinu þegar dagskrá menningarnætur náði hámarki með flugeldasýningu seint í gærkvöldi.

Þegar leið á nóttina fór nokkuð að bera á tilkynningum um ölvað fólk sem átti í ýmsum samskiptavandamálum. Eitthvað var um líkamsmeiðingar sem ekki hafa fengið fullnaðar bókun þegar lögregla ritaði dagbók sína í morgun því lögreglumenn voru enn að störfum í miðborginni.

Nokkrum sinnum var tilkynnt um fólk sem svaf ölvunarsvefni á gangstéttum eða umferðareyjum. Þessu fólki var komið til aðstoðar og fundin úrræði ef ekki var hægt að koma því til síns heima.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um átök hóps ungmenn í Lækjargötu. Einn piltur undir tvítugu var fluttur á slysadeild í lögreglubifreið, ekki ert vitað um meiðsl hjá honum en lögregla segir allt málið mjög óskýrt.

Þegar klukkan var um fimm í morgun var maður sleginn í höfuðið í Lækjargötu. Var sjúkrabíll sendur á staðinn, en maðurinn var með áverka á höfði.

Þá sagði Vísir frá því í gærkvöldi að margir þeirra sem sóttu miðbæinn hefðu fengið sekt fyrir að leggja bílnum sínum ólöglega.

Einnig var sagt frá því að lögreglan hefði þurft að hafa afskipti af ungmennum sem höfðu drukkið vín án þess að ná áfengiskaupaaldri. Var áfenginu í öllum tilvikum fargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×