Enski boltinn

D-deildarlið Cambridge United fær annan leik á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Manchester United tókst ekki að vinna Cambridge United í fyrsta leiknum í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld. Liðin gerðu markalaust jafntefli og því verður annar leikur á Old Trafford eftir tíu daga.

Manchester United var mun meira með boltann í leiknum og fékk fleiri sín færi en tókst ekki að finna leiðir framhjá Chris Dunn í marki Cambridge United.

Skipulag Cambridge United liðsins gekk upp og liðið náði að halda hreinu á móti stórstjörnum Manchester United. Wayne Rooney var þó ekki með United-liðinu í kvöld.

Cambridge United er í 12. sæti í ensku d-deildinni sem þýðir að liðið er 76 sætum neðar en Manchester United.

Manchester United skoraði ekki fyrr en eftir 64 mínútur á móti C-deildarliði Yeovil Town í 3. umferðinni en vann þann leik 2-0. Að þessu sinni datt markið ekki inn en United fær annan leik á heimavelli eftir tíu daga.

Þetta eru ein bestu úrslitin í sögu Cambridge United og munu skila liðinu miklum peningum í kassann nú þegar seinni leikurinn fer fram á Old Trafford.

Cambridge átti fínan fyrri hálfleik og besta færi fyrri hálfleiksins en líkt og oft í síðustu leikjum var Manchester United ekki að búa mikið til í fyrri hálfleik.

Manchester United skapaði mun meira í seinni hálfleiknum. Chris Dunn varði vel frá Radamel Falcao á 62. mínútu og Robin van Persie skaut framhjá á 71. mínútu nýkominn inná sem varamaður.

Ryan Donaldson var alltaf líklegur til að skapa hættu með auka- og hornspyrnum sínum og því var alltaf smá von á marki frá Cambridge.

Manchester United var miklu meira með boltann en markið kom ekki. Angel Di Maria var nálægt því að skora í uppbótartíma eftir pressu frá United-liðinu en Chris Dunn varði vel.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×