Svíar gætu verið í vondum málum á HM því þeirra besti maður, Kim Andersson, er meiddur.
Hann gat ekki spilað í átján mánuði vegna axlarmeiðsla en kom til baka í september árið 2014. Axlarmeiðslin tóku sig síðan upp í leik gegn Dönum á æfingarmóti fyrir HM.
Í leiknum gegn Egyptum í gær gaf öxlin sig síðan endanlega og Andersson varð þá að fara af velli.
„Þetta er ekki gott. Þegar ég tók skot í leiknum þá var eins og öxlin hefði dottið af mér. Ég varð dofinn í öxlinni og leið ekki vel," sagði Andersson eftir leikinn í gær.
Svíar ætla að reyna eins og þeir geta að koma Andersson í gang fyrir framhaldið.
„Ég vona svo innilega að ég geti spilað áfram. Við munum vinna í þessu en það er ómögulegt að segja til um hvernig þetta fer."
Andersson mun verða sprautaður í öxlina og er afar ólíklegt að hann spili með gegn Frökkum á morgun.
Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).
Óvissa um framhaldið hjá Andersson
