Innlent

Dæla þurfti sjó úr öðru skipi Björgunar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sanddæluskipið Perla á leið undir yfirborð sjávar á mánudag. Talið er að gleymst hafi að loka fyrir botnloka.
Sanddæluskipið Perla á leið undir yfirborð sjávar á mánudag. Talið er að gleymst hafi að loka fyrir botnloka. vísir/vilhelm
Betur fór en á horfðist þegar dæla þurfti sjó úr sanddæluskipinu Dísu í síðustu viku eftir að gleymst hafði að loka fyrir botnloka skipsins. Sjór komst inn í vélarrúmið og litlu munaði að báturinn hefði endað á botninum, líkt og Perla, sem nú situr á botni Reykjavíkurhafnar. Útgerðarfyrirtækið Björgun gerir út sanddæluskipin Perlu og Dísu.

„Að öllum líkindum var opinn botnloki eða kælirör inni í vélarrými. Hún hafði tekið á sig sjó og var komið talsvert í þannig að það var óskað eftir aðstoð okkar. Það þurfti aukadælur til að koma sjónum úr en það tók um þrjá klukkutíma eftir að dælurnar voru komnar,“ segir Pétur Pétursson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Dísa var við bryggju í Þorlákshöfn þegar lekinn kom að en að sögn Péturs hafði vinna verið í gangi í vélarrýminu. „Þegar dælingunni var lokið var fenginn sérhæfður búnaður til að dæla menguðum sjó upp úr, en engin olía lak úr skipinu,“ segir Pétur.

Sem kunnugt er sökk sanddæluskipið Perla í Reykjavíkurhöfn á mánudag eftir að gleymst hafði að loka fyrir botnloka skipsins. Unnið er að því að koma skipinu á þurrt.

Sanddæluskipin Perla og Dísa hafa verið notuð til dýpkunar í Landeyjahöfn að undanförnu.


Tengdar fréttir

Reyna að ná Perlu á flot

Undirbúningsaðgerðir við að koma sanddæluskipinu Perlu, sem sökk í Reykjavíkurhöfn í gær, hófust í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×