„Við seljum til þrjú til fjögur hundruð ríkustu fjölskyldna í heimi, við vinnum bara innan þeirra marka,“ segir Gunnar. „Við höfum gert ýmislegt til að komast í þessa stöðu, og við byrjuðum ekki að selja inn á þennan markað fyrr en tíu árum eftir stofnun.“
Vikal International sérhæfir sig í lúxushraðbátum fyrir stórar snekkjur. „Snekkjur á stærð við stærstu togara Íslands bera um borð smábáta og við smíðum þá. Þetta eru eins konar ferjur fyrir eigendurna og gesti þeirra, og í raun leikföng líka. Það eru alltaf sérþarfir fyrir hvern bát,“ segir Gunnar og áréttar að um hágæðaframleiðslu sé að ræða. „Sumir af þessum bátum eru í rauninni bara eins og stórir skartgripir. Fólkið sem kaupir þessa báta er fólk sem er búið að kaupa allt annað. Þetta er eiginlega það síðasta sem þú þarft að eiga. Þú kaupir ekki svona bát fyrr en þú ert búinn að panta skipið, og átt nú þegar nokkur hús, þyrlu og flugvél og allt annað sem þér dettur í hug.“

„Það er ekki hægt að smíða marga báta á ári og það eru ekki pantaðir nema fáir svo þetta gengur alveg upp.“ Gunnar segir söluna vera mjög sveiflukennda og velta mikið á efnahagsástandi heimsins. Hann segir að efnahagshrunið hafi haft áhrif. En nú sé þetta komið á fleygiferð aftur.
Fyrirtækið hefur stækkað frá stofnun en Gunnar segist aldrei hafa haft mikinn áhuga á útrás. „Þetta er rosalega takmarkaður markaður og við erum ekki í því að stækka eins mikið og hægt er. Hann sonur minn stækkar fyrirtækið kannski í framtíðinni, það er undir honum komið.“
Gunnar á sjálfur einn bát en segist ekki hafa sérlega mikinn áhuga á honum. „Ef maður hefur unnið við bátasmíði sex daga vikunnar mestalla ævina þá vill maður ekki eyða sjöunda deginum við það að leika sér um borð í bát.“