Á borði Illuga en ekki fjárlaganefndar
Til stóð að afhenda Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, undirskriftalista þar sem þessi krafa er áréttuð. Af því verður þó ekki því Vigdís hvorki getur né vill veita þessum undirskriftum viðtöku. Breytingar á dagskrá fundarins hafa verið boðaðar vegna þessa.„Í fyrsta lagi er ekki hægt að setja neinn á dagskrá viðburðar nema hafa samband við hann fyrst, áður en auglýsing er send út. Í öðru lagi var haft samband við mig í gegnum tölvupóst, þar sem ég afþakkaði boðið á þeim forsendum að þetta væri málaflokkur mennta- og menningarmálaráðherra. Og benti þeim á að hafa samband við hann. Í kjölfarið fékk ég annan tölvupóst, sama dag, og ítrekaði þá að þetta væri málaflokkur Illuga,“ segir Vigdís í samtali við Vísi.
Myndlistarmenn sækja að Vigdísi
Þetta var fyrir rúmri viku og er ekki öll sagan sögð, því myndlistarmenn sóttu nokkuð hart að Vigdísi með þetta erindi:
Talar fyrir aðhaldi í ríkisrekstri
En, hvernig horfir málið við þér, þá svona utan dagskrár?
„Ég hef alltaf talað fyrir aðhaldi í ríkisrekstri og forgangsröðun til grunnstoða samfélagsins. Og það er rauði þráðurinn í mínum málflutingi frá því ég tók við sem formaður fjárlaganefndar og það hefur ekkert breyst.“
Og, myndlistin telst ekki til grunnstoða samfélagsgerðarinnar að þínu mati?
„Ég er ekki að leggja mat á það en ég er ekki að mæta þarna til að taka við þessum lista, þetta er ekki á mínu borði.“
Öllum alþingismönnum boðið á fundinn
Samtök íslenskra myndlistarmanna hafa boðið öllum alþingismönnum til fundarins, eins og segir í tilkynningu:
Þér er boðið á setningu herferðarinnar “VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM” í Norræna húsinu, Sturlugötu 5, föstudaginn 20. nóvember, kl.16:00 - 17:00.
Tilgangur herferðarinnar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er að kynna samning um þátttöku og framlag listamanna til sýningarhalds.
Framlagssamningurinn getur orðið grundvöllur til að byggja á, fyrir öll listasöfn á Íslandi og opinberar byggingar, sem eru fjármagnaðar af opinberum aðilum að hluta eða öllu leyti.
SÍM hefur sett af stað tvíþætta undirskriftasöfnun til að minna á mikilvægi stóru opinberu sjóðanna, fyrir störf myndlistarmanna og listfræðinga.
Niðurskurði á meginsjóðum myndlistarmanna; Myndlistarsjóði og Listskreytingasjóði, er mótmælt og skorað er á Alþingi að sýna stórhug og framsýni í verki með því að veita, 52 milljónum króna í Myndlistarsjóð og 10 milljónum króna í Listskreytingasjóð, fyrir árið 2016.