Innlent

Veiddu kvígu úr haughúsi: „Þakka fyrir að norska kynið er ekki komið hingað“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bönd og talía voru nýtt til að veiða kvíguna úr skítnum.
Bönd og talía voru nýtt til að veiða kvíguna úr skítnum. myndir/landsbjörg
„Ég þakka bara fyrir að það er ekki búið að flytja norska kynið inn,“ segir Gunnar Örn Jakobsson formaður Björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga. Liðsmenn hennar lentu í því í fyrradag að þurfa að draga kvígu upp úr haughúsi á bænum Búrfelli.

Atvikið átti sér stað skömmu eftir mjaltir en kvígan spyrnti upp grind í flórnum og féll niður í haughúsið. Bóndinn náði að bregða múl á hana og halda við hana en þurfti að kalla á aðstoð til að veiða hana upp úr.

„Við gengum bara í þetta að koma böndum á hana og utan um hana. Við náðum að lyfta henni aðeins upp og náðum þá að koma böndunum undir hana. Í kjölfarið nýttum við talíu og handafl til að ná kvígunni upp úr,“ segir Gunnar. Fullorðin kýr getur vegið nærri hálfu tonni en hann giskar á að kvígan hafi verið hátt í 400 kílógrömm.

Kvígan var nokkuð þrekin er hún kom upp úr mykjunni enda hafði hún þurft að troða marvaðann til að koma í veg fyrir að hún færi á kaf. Skömmu eftir að hún var komin upp úr var hún hins vegar komin í heyið á nýjan leik og öll að koma til.

„Við komum með flotgalla með okkur en þurftum ekki að nota hann. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem við lendum í svona atviki, ég man allavega eftir þremur öðrum tilvikum. Í eitt skiptið fóru fleiri en ein niður og við urðum að hleypa skítnum úr haughúsinu og svo komu kýrnar bara fljótandi með drullunni út,“ segir Gunnar og hlær. „Við viljum samt helst ekki safna í þennan reynslubanka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×