Erlent

Nígeríumenn ganga að kjörborðinu í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Kjósendur þurfa fyrst að skrá sig með fingraförum áður en þeir geta kosið.
Kjósendur þurfa fyrst að skrá sig með fingraförum áður en þeir geta kosið. Vísir/AFP
Forsetakosningar fara fram í Nígeríu í dag og er búist við að mjótt verði á munum í kjörinu milli sitjandi forseta Goodluck Jonathan og Muhammadu Buhari.

Í frétt BBC kemur fram að þetta séu einar mest spennandi kosningar í landinu frá því að lýðveldi var stofnað árið 1963.

Kosningunum var frestað um sex vikur til að gefa Nígeríuher færi á að endurheimta landsvæði sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram höfðu komist yfir.

Jonathan og Buhari hafa báðir heitið því að koma í veg fyrir að átök brjótist út að loknum kosningum.

Kjósendur þurfa fyrst að skrá sig með fingraförum áður en þeir geta kosið.

Fréttaritari BBC í Nígeríu segir að á sumum kjörstöðum virðist sem notkun fingrafaraskanna gangi hægt eða að þeir séu einfaldlega bilaðir.

Nígería er fjölmennasta ríki Afríku en þar búa um 170 milljónir manna. Jonathan er kristinn maður úr suðurhluta landsins, en Buhari múslími úr norðurhluta landsins.

Jonathan tók við embætti forseta Nígeríu árið 2010 og hefur verið mikið gagnrýndur fyrir að hafa mistekist að stöðva framgang Boko Haram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×