Innlent

Leist ekki á blikuna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Snjóruðningsmenn hafa staðið í ströngu síðan klukkan fjögur í nótt við að ryðja götur á höfuðborgarsvæðinu. Snjókoman er sú mesta í nóvember í nærri fjörtíu ár. Þegar mest var í dag voru þrjátíu snjóruðningstæki og gröfur á ferð um borgina.

Snjó tók að kyngja niður á höfuðborgarsvæðinu um ellefu leytið í gærkvöldi og snjóaði nær linnulaust þar til klukkan sex í morgun. Þegar borgarbúar vöknuðu þakti snjór götur og bíla. Sumir lentu í nokkrum vandræðum með að komast leiðar sinnar. Byrjað var að moka göturnar strax í nótt og stóð moksturinn í allan dag.

Snjódýpt í Reykjavík mældist í morgun 32 sentimetrar. Aðeins fimmtán sinnum frá árinu 1949 hefur mælst meiri snjókoma á einum sólahring. Þá er þetta mesta snjódýpt í Reykjavík í nóvember síðan 1979.

Hávarður Hilmarsson, snjóruðningsmaður, hóf að moka götur borgarinnar klukkan fjögur í nótt og var að í allan dag. Hann segir að strax þegar lagt var á stað í nótt hafi verið ljóst að verkefnið var óvenju stórt að þessu sinni. „Manni leist nú ekkert beint blikuna. Töluvert mikið og bílar út um allt. Mikil umferð þannig að maður þurfti í raunninni að reyna bara að opna, stinga í gegnum skaflanna og gera þetta bara nokkuð greiðfært,“ segir Hávarður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×