Innlent

Skotið á bíl úr haglabyssu á sama svæði fyrir tveimur mánuðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fleiri tugi hola mátti sjá á bílnum auk þess sem rúða var brotin.
Fleiri tugi hola mátti sjá á bílnum auk þess sem rúða var brotin.
Lögreglunni í Kópavogi var tilkynnt um að skotið hefði verið úr haglabyssu í bíl á bílastæði nærri Hjallakirkju þann 9. apríl. Eigandi bílsins fékk þau svör frá lögreglu að líklega hefði verið um loftbyssu að ræða þótt högl hefðu fundist í bílnum. Atvikið átti sér stað á bílastæði við blokkina þar sem umsátursaðgerðir lögreglu hafa farið fram í dag.

Hjörtur Örn Arnarson var staddur erlendis þegar hann fékk þau skilaboð frá konu sinni og dóttur að skotið hefði verið á bíl þeirra. Dóttirin hafði verið í heimsókn hjá vinkonu í Hlíðarhjalla, stokkið inn til hennar um korter að kvöldi til en þegar út var komið hefði bíllinn verið stórskemmdur. Meðal annars var rúða brotin og barnabílstólar fullir af glerbrotum.

Lögreglu var tilkynnt um málið daginn eftir. Sögðu lögreglumenn við mæðgurnar að líklega hefði verið um loftbyssuskot að ræða. Þegar Hjörtur Örn kom sjálfur til landsins ræddi hann sjálfur við lögreglumann í Kópavogi sem tók undir með Hirti að augljóslega hefði ekki verið um loftbyssuskot að ræða. Taldi Hjörtur mikilvægt að málið yrði rétt skráð hjá lögreglu.

„Mér er alveg sama um bíldrusluna en mér fannst lögreglan gera heldur lítið úr þessu,“ segir Hjörtur Örn í samtali við Vísi. Það hlyti að vera alvarlegt mál ef skotið væri úr haglabyssu á bíl í íbúðarhverfi.

Aðgerðir lögreglu við Hlíðarhjalla standa enn yfir en sérsveitarmenn eru komnir inn í blokkina og reyna að ná tali af manninum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×